Fjárhagsáætlun A-hluta borgarsjóðs gerir ráð fyrir 4,8 milljarða króna afgangi árið 2026. Í fimm ára áætlun er gert ráð fyrir að hagnaður A-hluta fari stigvaxandi og nemi 10,6 milljörðum árið 2030. Tekjur borgarinnar af arðgreiðslum Orkuveitunnar eru áætlaðar 6,1 milljarður og tekjur af lóðasölu 4 milljarðar.
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri segir rekstur Reykjavíkurborgar í góðu jafnvægi og að samkvæmt útkomuspám sé öllum fjárhagslegum markmiðum náð.
Spurð hvort það liggi fyrir hvaða áhrif lokun Norðuráls hafi á arðgreiðslur Orkuveitu Reykjavíkur til borgarinnar segist hún búast við upplýsingum um það í næstu viku.
„Norðurál hefur gefið út að fyrirtækið sé tryggt fyrir þessu og við reiknum með því að það sé tryggt gagnvart skuldbindingum sínum til Orkuveitunnar.“
Spurð hvort það geti ekki haft áhrif á arðgreiðslur til Reykjavíkurborgar segir Heiða að það sé ekkert sem bendi til þess að Norðurálssamningarnir gangi ekki eftir og að það geti haft áhrif á arðgreiðslurnar.
„Orkuveitan er stórt og stöndugt fyrirtæki sem fjárfestir mikið og stjórn þess þarf þá að endurskoða tekjuáætlun. Það eru margir aðrir sem vilja kaupa þessa orku, en Orkuveitan er skuldbundin þessum samningi og gerir ekki breytingu á neinu fyrr en allt er komið á hreint.“
Þannig að þið eruð ekki með neitt plan B og gerið ráð fyrir því að þessar arðgreiðslur skili sér?
„Við höfum enga ástæðu til að ætla annað. Þetta mál er á borði stjórnenda Orkuveitunnar og ef þetta hefur áhrif á arðgreiðslurnar þá á það eftir að koma í ljós, en ennþá eru ekki nein merki um það.“
Annar stór þáttur í tekjuöflun borgarinnar er 4 milljarðar í byggingarréttargjöld. Teljið þið raunhæft að gera ráð fyrir svo miklum tekjum af lóðasölu á sama tíma og fasteignamarkaðurinn er a.m.k. í tímabundnu frosti?
„Við erum að undirbúa miklar úthlutanir um leið og við erum að skoða nýjar leiðir sem kunna að hafa áhrif á tekjur af sölu byggingarréttar. Þessi áætlun er meðaltal undanfarinna ára sem fjármálaskrifstofan mælti með og er raunhæf miðað við húsnæðisáætlun borgarinnar. Það eru alltaf blikur á lofti í rekstri borgarinnar eins og annarra fyrirtækja á Íslandi og ef þetta breytist þá munum við bregðast við því.“
Þannig að þið reiknið með því að þessir 10 milljarðar frá Orkuveitunni og af lóðasölu skili sér?
„Varðandi byggingarréttinn þá er það okkar að selja hann og við erum heppin með að það hefur gengið vel.“
Í fjárhagsáætlun ársins 2026 er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A- og B-hluta verði jákvæð um 18,7 milljarða króna og EBITDA verði 69,6 milljarðar króna. Í útkomuspá fyrir árið 2025 er gert ráð fyrir að afkoma A- og B-hluta verði jákvæð um 14,6 milljarða króna.
Gert er ráð fyrir að í lok árs 2026 nemi eignir samtals 1.063 milljörðum króna og aukist um 74 milljarða króna á árinu. Þá er gert ráð fyrir að eiginfjárhlutfall nemi 45,5%.
Heildarfjárfesting er áætluð 74,9 milljarðar árið 2026 og gert er ráð fyrir að heildarfjárfesting árin 2027-2030 nemi 314,4 milljörðum króna. Árið 2026 er gert ráð fyrir að lántaka ársins nemi 53 milljörðum króna og að handbært fé í árslok verði 31,3 milljarðar króna.
Til skýringar þá er A-hluti borgarsjóðs rekstur sveitarfélagsins og B-hlutinn rekstur fyrirtækja í eigu borgarinnar.
Oddviti Framsóknar segir fjárhagsáætlunina lýsa fullkomnu ábyrgðarleysi
Útkomuspá ársins rétt yfir núllinu
„Þessi fjárhagsáætlun lýsir fullkomnu ábyrgðarleysi gagnvart þeirri stöðu sem blasir við núna. Greiningardeild Landsbankans spáir því að verðbólga verði 4,5% í janúar og litlar líkur á því að hún lækki. Við erum með húsnæðismarkaðinn í algjöru óvissuástandi þar sem bankarnir hafa skrúfað fyrir lánsfjármagn og Samtök iðnaðarins hafa sagt að niðursveiflan í byggingargeiranum sé hafin,“ segir Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknar.
Hann segir að við þessar aðstæður reiði borgin sig á byggingarréttargreiðslur upp á 4 milljarða og 6,5 milljarða arðgreiðslur til borgarinnar frá Orkuveitunni, þrátt fyrir að óvissa ríki vegna lokunar álversins á Grundartanga. „Við þessar aðstæður ákveður meirihlutinn að hætta hagræðingarkröfu á laun, og 5 milljarða afgangur sem við í Framsókn skiluðum árið 2024 er horfinn í hítina og útskomuspáin fyrir þetta ár 2025 gerir ráð fyrir að þau verði rétt yfir núllinu.“
Einar bætir við að áform um húsnæðisuppbyggingu í Höllum í Úlfarsárdal, sem kynnt var með húsnæðispakka ríkisstjórnarinnar, sýni hvað þær hugmyndir séu illa undirbúnar.
„Þau eru búin að kynna þessa uppbyggingu í Höllum, sem í tilefni dagsins mætti kalla Rekstrarhöllum, sem sýnir hvað það plan er veikt. Það virðist enginn vita hvað komast margar íbúðir fyrir á þessu svæði. Ég styð það sannarlega að það verði byggt í Úlfarsárdal enda lagði ég það til á sínum tíma.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
