Á stjórnarfundi Ríkisútvarpsins ohf. (RÚV), sem haldinn var í Efstaleiti þann 24. september 2025, fór Stefán Eiríksson útvarpsstjóri yfir stöðu dreifikerfismála RÚV.
Samningur RÚV við Sýn (áður Vodafone) um dreifingu sjónvarps- og útvarpsefnis rennur út árið 2028. Um er að ræða fimmtán ára samning sem gerður var árið 2013.
Útvarpsstjóri lagði á fundinum áherslu á að nauðsynlegt væri að taka ákvörðun um framhaldið innan skamms, þar sem núverandi samningur gerir ráð fyrir aðlögunartíma sem þarf að virkja tímanlega. Á fundinum var farið ítarlega yfir stöðu mála og þá kosti sem eru í boði til lengri framtíðar, með það að markmiði að tryggja örugga og hagkvæma dreifingu efnis RÚV til landsmanna, eins og það er orðað í fundargerð.
Leitað var eftir frekari upplýsingum hjá bæði RÚV og Sýn vegna málsins. Í svari frá Sýn segir að samtal við RÚV sé í gangi en viðræður séu á frumstigi. RÚV svaraði ekki fyrirspurn Morgunblaðsins.
Óljóst er hvort RÚV ætli að nýta sér að fara aðrar leiðir þegar núverandi samningur við Sýn rennur sitt skeið og hvaða leiðir sé þá verið að skoða. mj@mbl.is
