Stefán Örn Arnarson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í fjármunabrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir grun vera að millifærslur manna sem grunaðir eru um að millifæra hundruð milljóna af eigin reikningum án þess að inneign væri til staðar nái aftur um einhverjar vikur. Þá er unnið að því að staðsetja aðila erlendis sem taldir eru tengjast málinu og er nýtur lögreglan aðstoðar alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra.
Þetta segir Stefán Örn í samtali við mbl.is.
Málið snýr að mönnum, innlendum sem og erlendum, sem grunaðir eru um að hafa millifært hundruð milljóna af eigin reikningum án þess að inneign væri til staðar.
Alls náðu sakborningarnir að millifæra tæplega 400 milljónir króna af eigin reikningum hjá Landsbankanum án þess að inneign væri til staðar en það var tímabundinn veikleiki í kerfum Reiknistofu bankanna sem gerði mönnunum kleift að millifæra fjármunina.
Upp komst um málið á föstudag en aðspurður svarar Stefán að grunur liggi á að millifærslur mannanna nái einhverjar vikur aftur í tímann.
„Frá því að við ræddum við ykkur síðast hefur okkur orðið aðeins ágengt í því að kyrrsetja og haldleggja frekari fjármuni,“ segir Stefán.
Þá upplýsir hann að nú sé unnið að því að staðsetja aðila sem eru staddir erlendis og eru taldir tengjast málinu og segir hann lögregluna njóta aðstoðar alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra.
Hann segir hópinn sem handtekinn var hér á landi samansettan af innlendum og erlendum aðilum og að eitt af því sem sé einnig til rannsóknar hjá lögreglu sé hvort þeir hafi verið búsettir hér á landi eða verið hér tímabundið.
Nýlega var greint frá því að Landsréttur hefði hafnað beiðni lögreglunnar um gæsluvarðhald yfir mönnunum og að lögregla óttaðist að sakborningarnir gætu nýtt sér frelsið til að koma fé undan.
„Það sem ég vil segja um það er að í rannsókn í álíka máli þá er eitt að rannsaka og færa sönnur á verknaðaraðferðina en rakning fjármuna er svo allt annar handleggur með tilkomu landamæra, greiðsluþjónustu og erlendra færsluhirða. Sú vinna er bæði mjög umfangsmikil, tekur tíma og er mjög flókin. Þá er auðvitað betra að lögregla geti sinnt svona fyrstu björgunaraðgerðum án þess að aðilar geti komið í veg fyrir þær.“
Aðspurður um mögulegan leka innan Reiknistofu bankanna eða hvort einhver þar liggi undir grun segist Stefán ekki geta tjáð sig um það.
„Við þurfum í þessari rannsókn að ganga út frá því að loka fyrir allar getgátur. Við þurfum að loka fyrir og komast að því með nákvæmum hætti hvernig þetta gat gerst, hvernig þessi kerfisvilla kom til og líka að greina upphaf málsins, þ.e.a.s. þegar að fjársvikin hefjast, hvernig þau báru að, samanborið við þessa kerfisvillu.“
Um tölvugetu mannanna segir Stefán að ekki sé hægt með auðveldum hætti að komast að tölvugetu hvers og eins. Þess utan sé í dag hægt að nálgast og greiða fyrir þjónustu eða þekkingu sem varði tölvugetu t.a.m. í gegnum myrkravefinn, ákveðna miðla eða í gegnum Telegram-hópa svo eitthvað sé nefnt.
„Þó svo að einhver framkvæmi afbrot sem virðast vera þannig að viðkomandi búi yfir tölvugetu þá getur það verið þannig að viðkomandi hafi hreinlega keypt sér þá þjónustu. En þetta er bara eitt af því sem er til rannsóknar; að komast að því hvernig þetta gat gerst og hvernig þessi vitneskja um þessa kerfisvillu kom til,“ segir Stefán að lokum.