Filippo Grandi, aðalframkvæmdastjóri Flóttamannastofnunar Sameinuðu Þjóðanna (UNHCR), er staddur hér á landi til þess að funda með íslenskum stjórnvöldum um stöðu málaflokksins, skautun í pólitískri umræðu um útlendingamál og það hvaða aðgerðir stjórnvöld geti gripið til þess að ná fram árangri í aðlögun flóttafólks.
Grandi segir í samtali við Morgunblaðið að hann leggi áherslu á það við stjórnvöld að þau fjárfesti í aðlögun þeirra flóttamanna sem landið taki á móti og fjárfesti jafnframt í góðu kerfi til þess að greina hvort að þeir sem hingað leiti séu flóttamenn í raun. Þá hefur hann beðið íslensk stjórnvöld um að taka aftur á móti svonefndum „kvótaflóttamönnum,“ og segir að það kerfi sem hér var komið á fót hafa gefið góða raun.
Þetta er í fyrsta sinn sem Grandi heimsækir landið og lætur hann vel af reynslu sinni af bæði íslenskri náttúru og þjóð. Hann segir aðspurður hlakka til að heimsækja landið á nýjan leik, en hann mun láta af störfum sem aðalframkvæmdastjóri UNHCR við næstu áramót. Lýkur þar með nærri því 42 ára löngum ferli þar sem Grandi hefur sinnt hinum ýmsu flóttamannamálum, en hann hóf fyrst störf sem sjálfboðaliði árið 1984, en þá fór hann til þess að aðstoða flóttamenn frá Kambódíu sem voru að koma til Taílands.
Fjórum árum síðar fór Grandi fyrst til starfa við UNHCR, en hann hefur sinnti einnig störfum fyrir UNAMA, aðstoð Sameinuðu þjóðanna í Afganistan og við Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna í Palestínu, UNRWA, þar sem hann var m.a. framkvæmdastjóri frá 2010 til 2014, áður en hann hélt aftur til UNHCR.
„Þannig að þegar fólk biður mig um að lýsa ferli mínum segir ég að ég hafi verið að takast á við krísuástand í rúmlega 40 ár, og þá sérstaklega mannlega þættinum og mannúðarvinnunni,“ segir Grandi. Hann bendir á að heimurinn hafi verið mjög frábrugðinn því sem nú er árið 1988, þegar hann fór fyrst til UNHCR, þar sem kalda stríðinu var þá að ljúka. Aðspurður hvort að ástandið nú sé verra en þá, segir Grandi erfitt að svara slíkri spurningu.
„Ég hef komist að því í gegnum tíðina, og sérstaklega þar sem ég hef unnið svo mikið í krísum, að það er erfitt að segja hvort að ástandið sem maður er í sé betra eða verra, það er einfaldlega öðruvísi,“ segir Grandi. Hann segist hafa séð ýmislegt á löngum ferli. „Ég var á svæðinu við stóru vötnin í Afríku skömmu eftir þjóðarmorðin í Rúanda, ég var í Afganistan á meðan borgarastríðið þar stóð yfir, ég var í Kongó þegar borgarastríðið stóð þar yfir. Ég meina, ég hef verið í frekar hræðilegum aðstæðum á minni tíð, og raunveruleikinn er sá að það eru enn svæði sem glima við svipað ástand á þessari stundu,“ segir Grandi og nefnir þar Súdan, Gasasvæðið, Mjanmar og Kongó. „Þannig að þú veist, því miður, halda krísur áfram að vera til líkt og þær voru áður og því miður eru fórnarlömbin alltaf saklausir borgarar.“
Hann bætir við að ástandið í alþjóðastjórnmálum hafi hins vegar vissulega breyst gríðarlega mikið. „Ég hóf feril minn sem ungur maður í kalda stríðinu. Heimurinn þá var mjög klofinn, en hann var á sinn hátt auðveldur að skilja. Við gengum svo í gegnum tíunda áratuginn sem var mikill umhleypingatími og staðan hefur nú orðið enn flóknari,“ segir Grandi.
Hann bætir við að við lifum nú í margpóla heimi, sem sé helst skilgreindur á þann hátt að nú sé tími „fjölkrísa“, þar sem margar krísur séu uppi á sama tíma með margvíslegum leikendum á bak við þær. Þá séu ekki sömu skýru skilgreiningarnar á valdi stórveldanna og áður fyrr sem geri erfiðara fyrir að leita lausna á þessum krísum en í fortíðinni.
„Og þú veist, sem mannvinur hef ég alla ævi mína talað fyrir pólitískum lausnum. Það er vel þekkt orðatiltæki að mannúðarkrísur hafi ekki mannúðlegar lausnir, þær hafa pólitískar lausnir, og nú í heimi þar sem ástandið er eins og það er, er erfiðara að finna þær en í kalda stríðinu og erfiðari en á tíunda áratugnum þegar Bandaríkin báru höfuð og herðar yfir aðra, þar sem Sovétríkin voru fallin og Kína ekki komið á þann stað sem landið er nú. Það var einfaldara.“
Ein afleiðing þessa ástands er að fjöldi flóttamanna í heiminum hefur nú farið sífellt vaxandi á nær hverju ári frá árinu 2012. Grandi segir lykilspurninguna í því samhengi hvers vegna svo sé. „Hvers vegna getum við ekki leyst átök? Því að ég get sagt þér það að þó að þessir miklu fólksflutningar eigi sér margþættar ástæður er sú veigamesta enn fyrst og fremst átök. Þessar 120 milljónir manns, þær eru á hreyfingu vegna átaka. Til að leysa átök er fyrir mér einn lykilþáttur, að ná fram einingu. Alþjóðasamfélagið þarf að standa sameinað til þess að binda endi á átök,“ segir Grandi.
Hann bendir á hinar ýmsu aðstæður, þar á meðal Dayton-samningana, og þau bandalög sem Bandaríkin mynduðu annars vegar 1991 þegar Írak réðst inn í Kúveit og 2001 þegar þau steyptu talíbönum af stóli í Afganistan. Hann bendir á að ekki allir hafi veirð sammála, en að megnið af alþjóðasamfélaginu hafi þó staðið sameinað á bak við þær aðgerðir. „Ef þú kannar helstu atvik ferils míns sérðu að samstaðan gerði útslagið. Það versta við heiminn í dag er að þessi samstaða er ekki lengur til,“ segir Grandi og er ómyrkur í máli.
„Öryggisráðið, sem er helsta og mikilvægasta stofnun Sameinuðu þjóðanna, er treyst fyrir því hlutverki að tryggja frið og öryggi um víða veröld. Þar finna ríkin enga samstöðu, ekki einu sinni um hin mestu grundvallarmannúðarmál.“
Hann bætir við að hann sé þar ekki að tala um pólitísk deilumál, þar sem engin leið sé að finna sameiginlegan flöt á málum. „Stríðsátök geta þá geisað áfram, en við verðum [að sameinast um] að færa fólkinu neyðaraðstoð. Ég held að á síðustu fimm árum, þegar þú kannar ályktanir öryggisráðsins, þá hafa ríkin náð samstöðu kannski tvisvar eða þrisvar sinnum.“
„Þetta er ótrúlegt. Öryggisráðið er að bregðast því að það skortir samstöðu. Ef við getum ekki lagað þetta munum við ekki geta leyst átök,“ segir Grandi.
Grandi var á sínum tíma hjá UNRWA, flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna í Palestínu, en nokkuð hefur verið sótt að stofnuninni síðustu tvö árin á meðan stríðsátökum stóð á Gasasvæðinu. Grandi fór til UNRWA árið 2005, fyrst sem varaframkvæmdastjóri og síðar sem aðalframkvæmdastjóri samtakanna frá 2010 til 2014.
„Ég vil fyrst nefna það sem grunnpunkt: UNRWA er ómetanleg stofnun þar sem Palestínumenn búa, sem er á Vesturbakkanum, Gasasvæðinu, Líbanon, Sýrlandi og Jórdaníu, ekki bara út af mannúðarstarfi hennar, heldur skiptir einnig miklu máli að stofnunin veitir menntun og heilbrigðiseftirlit handa hundruðum þúsunda Palestínumanna í þessum heimshluta. Án þessarar þjónustu myndum við sjá heila kynslóð af palestínskum börnum, í það minnsta börnum palestínskra flóttamanna, sem myndu alast upp án menntunar.“
„Þetta er helsta áhættan við það ástand sem UNRWA er nú í, þar sem búið er að draga úr fjármagni til stofnunarinnar og koma í veg fyrir að hún geti sinnt starfi sínu á sumum stöðum, aðallega Gasa en einnig í Jerúsalum og hlutum af Vesturbakkanum. Þannig að það ástand veldur mér miklum áhyggjum og ég vona að það muni kvikna skilningur á því að UNRWA verður að geta haldið áfram starfi sínu,“ segir Grandi.
Hin hliðin á því eru síðan þær ásakanir sem hafa verið bornar á hendur stofnuninni, en starfsmenn UNRWA hafa m.a. verið sakaðir um að hafa starfað með Hamas-samtökunum. Grandi segir þær ásakanir ekki nýjar af nálinni.
„Ég man þegar ég stýrði UNRWA þurftum við að taka á sumum af þessum málum. UNRWA hefur gott kerfi til þess að rannsaka og taka á mögulegum brotum á siðareglum eða hegðunarreglum þeirra sem starfa fyrir stofnunina og stundum hefur starfslið verið látið fara því að það fylgdi ekki reglunum.“
Grandi segir þetta mjög erfiða stöðu, því að Palestínumenn séu hluti af átökunum, og stofnunin sé að krefja þá um að vera hlutlausir. Það sé raunin með þá flesta. Hann telur því að UNRWA hafi gert sitt til þess að svara og taka á þeim ásökunum sem bornar hafa verið á hendur starfsmönnum stofnunarinnar. „Mál hafa verið rannsökuð og gripið hefur verið til aðgerða, og ég tel að ef það koma frekari ásakanir þurfa þeim að fylgja sannanir um að starfsfólk UNRWA hafi ekki fylgt reglunum,“ segir Grandi.
Talið berst að Íslandi og framlagi okkar til flóttamannamála. Grandi segir það vera ómetanlegt, ekki síst þar sem stór hluti framlags okkar sé ekki „eyrnamerktur“ vissum málum. „Hvernig fjármagnar þú aðstoð í neyðarástandi sem enginn hefur áhuga á? Og samt er fólk að þjást þar líka. Heldurðu að við fáum mikið af framlögum fyrir Kongó eða Mjanmar?“ spyr Grandi og bætir strax við að þau séu frekar fá.
„En við höfum þá skyldu að hjálpa fólki sem verður fyrir barðinu á þessum krísum og þar kemur þetta „margnýtilega“ fjármagn til sögunnar,“ segir Grandi. Þá sé það einnig kostur þegar neyðarástand kemur óvænt upp, þar sem fólk þarf skyndilega að flýja heimili sín. „Það er ekki hægt að eyrnamerkja fjármagn fyrir slíkar aðstæður, maður byrjar á margnýtilega fjármagninu,“ segir Grandi.
Fjármagn sem ekki er eyrnamerkt ákveðnum verkefnum skiptir því lykilmáli að hans sögn, þar sem það gefur UNHCR tækifæri til að bregðast hratt við í erfiðum aðstæðum. Grandi gengur svo langt að kalla Íslendinga „heimsmeistara“ ásamt öðrum ríkjum á borð við Svíþjóð, Noreg og Holland í því að veita slík framlög til stofnunarinnar.
Grandi segir hins vegar að þeim ríkjum fari fækkandi sem veiti slík framlög. Hann segir það skiljanlegt því að ríkisstjórnir vilji gefa pening sinn þangað þar sem hagsmunir ríkja þeirra eru mestir. „Ég er ekki mótfallinn því, það er gott ef ríki X t.d. hefur áhuga á Súdan og það fjárfestir þar, því það mun auka áhuga þeirra á því vandamáli,“ segir Grandi en bætir við að það megi þá ekki verða á kostnað annarra vandamála. Hann tali því fyrir ákveðinni blöndu af eyrnamerktu og óeyrnamerktu fjármagni.
Hinn þátturinn sem Grandi nefnir er að ríki heims krefjast nú í auknum mæli af SÞ að samtökin séu skilvirk í vinnubrögðum sínum, og bætir við að það sé auðveldara að skila skilvirku starfi þegar fjármagnið getur farið þangað sem þess er þörf, frekar en ef það er eyrnamerkt vissum verkefnum.
En getur lítið eyríki virkilega hjálpað öðrum?
„Auðvitað munu framlög ykkar vera minni en þau sem koma frá stærri þjóðum, en það munar um hverja krónu þessa dagana,“ segir Grandi og bætir við að bæði Bandaríkin og sum Evrópuríki hafi dregið úr framlögum sínum til stofnunarinnar. Það skipti því máli að Ísland hafi ekki fylgt þeirri þróun.
Hann segist skilja að framlög Íslands séu mikil fyrir lítið ríki, en að hann sé mjög þakklátur okkur og voni að þau geti haldið áfram. Segir Grandi að hann hafi beðið ríkisstjórnina um að aðstoða UNHCR frekar á þessum tímamótum. „Ég kom hingað sérstaklega til þess að koma eftirfarandi til skila: lítið ríki getur vissulega látið til sín taka og er að gera gæfumuninn í lífi margra,“ segir Grandi.
Hann bætir við að hér hafi verið tekið upp kerfi um að taka á móti flóttamönnum, þar sem um 100 manns á ári fengu að koma hingað. „Í fyrsta lagi var þetta mjög gott verkefni. Það má spyrja, það eru 120 milljónir á flótta, hvaða máli skipta 100 manns í því samhengi? Það skiptir öllu máli fyrir þessa hundrað,“ segir Grandi. „Í öðru lagi hafði Ísland mjög góða stefnu þegar flóttafólkið var valið, konur, fórnarlömb ofbeldis og fólk í erfiðum aðstæðum í takt við ykkar sterku jafnréttisstefnu.“
„Þessar konur voru kannski þegar flóttamenn í öðrum ríkjum þar sem þær fengu ekki næga aðstoð, sálfræðilega, læknisfræðilega eða félagslega aðstoð. Eða kannski voru þetta meðlimir hinsegin-samfélagsins, við segjum við stjórnvöld ríkja sem taka á móti flóttamönnum að ef einhver flýr vegna þess að hann er ofsóttur eða mismunað á grundvelli kynvitundar eða kynhneigðar ætti að skoða hvort að viðkomandi geti talist sem flóttamaður.“
„Vandinn er að það gerist í mörgum heimshlutum að þetta fólk flýr land sitt og fer til annars lands þar sem því er áfram mismunað. Þannig að það fær kannski stöðu flóttafólks en lifir áfram erfiðu lífi,“ segir Grandi. Það sé því mjög gott ef slíkt fólk getur komist til ríkja á borð við Ísland, Kanada eða Hollands.
Grandi segir að þetta kvótakerfi flóttamanna hafi hins vegar verið stöðvað, þar sem of mikið af öðru fólki kom hingað, þar á meðal fólk frá Úkraínu og frá Venesúela. „Nú þegar búið er að ná betri tökum á því ástandi hef ég beðið ríkisstjórnina um að hefja aftur kvótakerfið, því að þetta er önnur stór leið fyrir Ísland til þess að hjálpa þessum samfélögum og þessum flóttamönnum,“ segir Grandi, en þetta var á meðal þess sem hann ræddi við Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra í fyrradag. „Og ég vona að ríkisstjórnin muni hugleiða þetta.“
En hvað stendur eftir af rúmlega fjörutíu ára ævistarfi?
„Ég hóf feril minn sem sjálfboðaliði og ég enda hann, eða að minnsta kosti þetta skeið ferilsins, sem yfirmaður stórrar mannúðarstofnunar fyrir flóttamenn sem einn af aðstoðarframkvæmdastjórum Sameinuðu þjóðanna. Ég er mjög stoltur af því að sjálfboðaliði sem hefur komið að mannúðarmálum alla ævi hefur fengið þann heiður að takast á við þessa ábyrgð. Ég vona að ég hafi náð að standa undir þeirri ábyrgð. Ég hef gert mörg mistök, um það er ég viss, en ég hef alltaf reynt að vera sannur þeim anda sem fékk mig til þess að gerast sjálfboðaliði í Taílandi árið 1984,“ segir Grandi.
Hann bætir við að hann hafi fengið þann mikla heiður hér á landi að hitta forseta lýðveldisins og forsætisráðherra auk fleiri ráðamanna, bæði utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra og fleiri.
„Ég er þakklátur Íslendingum fyrir þann heiður, en ég er jafnþakklátur fyrir að hafa fengið að hitta flóttamennina sem hér búa og funda með þeim borgaralegu stofnunum sem annast þessi mál, því að starf mitt snýst ekki bara um stjórnvöld, það snýst fyrst og fremst um flóttamennina og að vinna með þessum borgaralegu stofnunum sem skipta svo miklu máli fyrir viðbrögð okkar,“ segir Grandi.
„Þannig að ég vil fyrst og fremst segja takk fyrir, Ísland, fyrir að taka á móti fólki í neyð sem þarf á vernd og að veita þá vernd,“ segir Grandi.
Hann bætir við að nú sé í heiminum mikill pólitískur þrýstingur þar sem reynt sé að jaðarsetja flóttamenn eða útskúfa þeim. „Ég er ósammála þessu. Ég tel að það sem þurfi að gera hér sem og í öðrum ríkum löndum er að fjárfesta í aðlögun þeirra og fjárfesta í góðu kerfi til að komast að því hvort að viðkomandi séu flóttamenn eða ekki, að sjálfsögðu. Það er réttur og skylda hverrar ríkisstjórnar. Fjárfestið í aðlögun þeirra sem fá viðurkenninguna. Það er besta svarið við allri þeirri gagnrýni um að þetta fólk sé brotafólk, að það sé ógn, að það sé að stela störfum, sem er að sjálfsögðu ekki satt,“ segir Grandi.
„En þið þurfið að hafa góð kerfi og þar skiptir hið borgaralega samfélag svo mikil máli. Þetta eru skilaboð mín við starfslokin. Þetta snýst ekki bara um Sameinuðu þjóðirnar og ríkisstjórnirnar, og það sem ég hef lært á þessum rúmlega 40 árum eru sömu grunnatriðin og voru í gildi árið 1984.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
