„Högg fyrir allt afleysingafólkið“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, fylgist vel með stöðu mála …
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, fylgist vel með stöðu mála í Norðuráli. Samsett mynd/Árni Sæberg/Hallur

Unnið er logandi ljósi að því að reyna að lágmarka tímann sem það tekur að koma framleiðslunni á fullt í Norðuráli á nýjan leik. Meðal annars er verið að skoða hvort hægt verði að gera tímabundið við spennana tvo sem biluðu á meðan beðið er eftir nýjum.

Þetta segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, spurður út í stöðu mála eftir að bilun varð í stjórnbúnaði fyrir rúmum tveimur vikum með þeim afleiðingum að rekstur í tveimur þriðju hluta álversins stöðvaðist.

Bilunin varð fyrir rúmum tveimur vikum.
Bilunin varð fyrir rúmum tveimur vikum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ánægjulegur fundur

Hann segist hafa átt ánægjulegan fund með forstjóra Norðuráls og upplýsingafulltrúa fyrirtækisins fyrir rúmri viku síðan þar sem farið var yfir verkefnin sem eru í gangi vegna bilunarinnar.

„Það var ánægjulegt að sjá að fastráðnum starfsmönnum var ekki sagt upp og virðist ekki standa til, allavega ekki í bili ef ég skil fyrirtækið rétt. Hins vegar liggur fyrir að það er högg fyrir allt afleysingafólkið, sem er 40 manns plús, sem eðli málsins samkvæmt missti vinnuna. Síðan eru einhver afleidd störf sem þetta mun klárlega hafa áhrif á sem og tekjumöguleikar fólks varðandi aukavaktir og yfirvinnu og annað slíkt,” greinir Vilhjálmur frá og vonar vitaskuld að verksmiðjan komist sem fyrst á fullt aftur.

Stefnt er á full afköst í álverinu að loknum viðgerðum.
Stefnt er á full afköst í álverinu að loknum viðgerðum. mbl.is/Árni Sæberg

50 milljarðar á ári

Hann segir ánægjulegt að sjá að íslenskur almenningur átti sig á mikilvægi Norðuráls.

„Ég tók eftir því að Reykjavíkurborg gerir ráð fyrir allt að sex milljörðum í arðgreiðslur [frá Orkuveitu Reykjavíkur]. Við skulum ekki gleyma því að stærsti orkusalinn til Norðuráls er Orkuveita Reykjavíkur, þannig að það hangir mikið á að þessi starfsemi sé hér í fullum gangi enda skilar hún íslensku þjóðarbúi um eða yfir 50 milljörðum inn í íslenskt samfélag á hverju einasta ári,” segir Vilhjálmur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert