Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) samþykkti í gær árlegan stækkunarpakka sinn, sem er skýrsla um hvernig umsóknarríkjum um aðild að sambandinu miði í aðlögun sinni. Þar er grein gerð fyrir tíu ríkjum, en athygli vekur að Íslands er þar í engu getið.
Á hinn bóginn afgreiddi í gær utanríkismálanefnd Evrópuþingsins skýrslu um málefni ESB gagnvart norðurslóðum, en þar var hvatt til aukins samstarfs sambandsins við Ísland, Noreg og Grænland á sviði öryggismála og orkuöflunar.
„Ég vonast til þess að sjá Ísland, Noreg og Grænland ganga í Evrópusambandið í nálægri framtíð,“ sagði Urmas Paet, Evrópuþingmaður frá Eistlandi, sem gerði grein fyrir skýrslunni á þinginu.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra telur ekki að þetta hafi nokkra þýðingu varðandi stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu, en áhöld hafa verið uppi um hvort aðildarumsókn Íslands frá 2009 sé enn í gildi.
„Ég ætla bara að undirstrika það sem við höfum alltaf sagt og Evrópusambandið hefur líka sagt, að umsóknin er virk. Það er þó, eins og við höfum margítrekað, íslensku þjóðarinnar að ákveða hvort hún setji ferlið aftur af stað. Það er íslenska þjóðin sem ræður því og ef hún segir já, þá er kerfið þannig að umsóknin er virk.“
Ráðherra telur það ekki hafa neina þýðingu að Ísland hafi ekki verið meðal þeirra ríkja sem fjallað er um í stækkunarpakkanum, en þar á meðal er Tyrkland, sem sótti um aðild árið 1987, en er þó ekki í aðlögun nema að nafninu til.
„Umsóknin er virk, en verður ekki endanlega virk fyrr en íslenska þjóðin er búin að taka ákvörðun um að fara þessa leið. Ef íslenska þjóðin segir já þá er það ferli sem verður mun styttra en ella hefði verið. Það er bara alveg skýrt.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
