Starfsumhverfið á Íslandi öðruvísi

Mikilvægt er að horfa betur til gæða þeirrar kennslu sem veitt er í skólastofum í dag. Nýta má ýmsar leiðir til að auka þau, meðal annars með því að rýna í upptökur af kennslustundum og efla starfsþróun kennara – þá duga einstaka skólaheimsóknir ekki til.

Þetta segir Berglind Gísladóttir sem leiðir í dag hóp sem rannsakar kennaramenntun á Íslandi. Hún ræðir kennaranám og kennslu í Dagmálum.

Vill ekki stytta námið

Berglind, sem er dósent við menntavísindasvið Háskóla Íslands, segir kennaramenntun ekki yfir gagnrýni hafna, huga megi að ýmsu sem hægt er að bæta en hún er þó ekki þeirrar skoðunar að stytta eigi námið úr fimm árum í þrjú.

„Sjálf fór ég í gegnum þriggja ára kennaranám á sínum tíma, og lærði fullt á að vera í náminu, vissulega,“ segir Berglind. Hún tekur þó fram að fljótlega eftir að hún byrjaði að kenna hafi hún áttað sig á að hún yrði að læra meira í faginu sem hún kenndi.

Berglind endaði á að fara út til Bandaríkjanna í doktorsnám í stærðfræðikennslu og kenndi í einkaskóla í New York. Starfsumhverfið vestan hafs var mjög frábrugðið því sem hún þekkti á Íslandi, fyrir utan ólíka menningu var utanumhaldið í skólunum allt annað.

„Þeir taka það mjög alvarlega, gæði kennslunnar, þegar maður er …
„Þeir taka það mjög alvarlega, gæði kennslunnar, þegar maður er ráðinn. Við erum ekki með neitt svona. Það er bara: „Viltu koma að kenna!“ Af því að okkur vantar alltaf kennara.“ mbl.is/Eyþór

Vantar alltaf kennara

Hún segir mun meira eftirlit hafa verið með kennurum en þegar hún sótti um vinnuna þurfti hún til að mynda að kenna kennslustund í stærðfræði fyrir framan aðra kennara og skólastjórnendur. Eftir að hún fékk vinnuna fékk hún einnig reglulegar heimsóknir í stofuna þar sem einhver fylgdist með kennslunni.

„Þeir taka það mjög alvarlega, gæði kennslunnar, þegar maður er ráðinn. Við erum ekki með neitt svona. Það er bara: „Viltu koma að kenna!“ Af því að okkur vantar alltaf kennara.“

Skiptir máli hvað gerist á milli mælinga

Morgunblaðið og mbl.is hafa fjallað ítarlega um skort á eftirliti með kennslu á Íslandi síðustu ár, eða svokallað ytra mat. Skiptar skoðanir eru á mikilvægi slíks eftirlits innan skólasamfélagsins. Berglind segir ytra matið mjög mikilvægt, raunar séu alls kyns mat og mælingar af hinu góða, en það eitt og sér dugar ekki.

„Ef ég mæli bara aftur og aftur án þess að gera eitthvað á milli, þá kemur bara sama mælingin, það gerist ekkert. En hvað á að gera á milli þessara mælinga? Við verðum að fókusa á gæði þeirrar kennslu sem nemendur eru að fá í skólunum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert