Þorvarður Árnason, forstöðumaður rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði, hefur verið duglegur við að mynda íslenska jökla í gegnum árin til að varpa ljósi á bráðnun þeirra og rýrnun ár frá ári. Um miðjan ágúst gerðust þau tíðindi að um 2 km af ís brotnuðu af Heinabergsjökli í Vatnajökli.
„Þessi stóra tunga sem náði mitt á milli fjallanna hafði stöðugt verið að minnka. Það var smá tota allra vestast og hún var greinilega að fljóta upp. Ég sá hvernig hún hagaði sér og var byrjuð að brotna. Svo verður þessi risaatburður um miðjan ágúst,” greinir Þorvarður frá.
Miðað við gervitunglamyndir er talið að við þennan eina atburð hafi um 2 km af jöklinum brotnað upp í fleiri búta.
Hann nefnir að mjög hliðstæð atburðarás hafi gerst við Hoffellsjökul fyrir rúmum áratug síðan, sem þó var minni í umfangi.
„Þessi atburður við Hoffellsjökul kom mér svolítið á óvart. Þegar maður var búinn að upplifa það sá maður merkin og var búinn undir að þetta gæti gerst aftur.”
Þorvarður tekur fram að atburðurinn í ágúst sé hluti af lengri og viðvarandi atburðarás sem hafi staðið yfir í nokkur ár. Ef miðað sé við fremsta hluta jökulsporðsins vestanmegin hafi um 6 km af jöklinum brotnað upp í heild sinni á síðustu þremur til fimm árum.
„En ég held þó að óhætt sé að segja að þessi atburður í ágúst sl. sé stærsti einstaki atburðurinn sem hefur átt sér stað á þessu tímabili, að minnsta kosti enn sem komið er.”
Eftir að hafa fengið gervitunglamynd af Heinabergsjökli frá fyrrverandi nemanda sínum í ágúst fór Þorvarður af stað með drónann sinn og festi breytingarnar á filmu. Vísindamenn hafa í gegnum tíðina nýtt sér ljósmyndir Þorvarðar við rannsóknir sínar á jöklum og munu þeir einnig gera það í þessu tilviki.
„Ég er mjög glaður yfir því að þessar myndir sem ég er að taka geti nýst mínum kollegum í þeirra vinnu. Það er svo mikilvægt að við hjálpumst að við að ná utan um þessar gígantísku breytingar sem eru að verða á okkar náttúrulega umhverfi,” segir hann og á þar við hlýnun jarðar og nefnir að þegar jöklar á borð við Heinabergsjökul hopa í stórum mæli kalli sumir það hamfarahop.
Bendir hann jafnframt á að lón sem myndist við jöklana magni upp hraða bráðnunarinnar eins og virðist hafa gerst í þessu tilfelli.
Spurður hvort honum finnist ekki dapurlegt að sjá mikið magn íss brotna frá jökli líkt og þarna gerðist segir Þorvarður alltaf erfitt að horfa upp á vini sína veikjast.
„Ef við breytum ekki um stefnu er alveg ljóst að allir þessir jöklar sem ég kalla vini mína verða eyðingu að bráð á næstu áratugum og næstu einum til tveimur öldum,” svarar hann.
Þessi sorg segir hann að kveiki hjá sér neista til að gera allt sem í hans valdi stendur til að sporna við þróuninni.
„Við erum að stefna að allsherjartortímingu og hörmungum fyrir mannkyn og fyrir lífríki jarðar. Það er það sem hopun jökla segir mér og yfir því er ég mjög sorgmæddur.”