Snjókoman mikla sem gekk yfir suðvestanvert landið í síðustu viku lagðist ansi þungt á tré og annan gróður.
Víða mátti sjá trjágreinar bogna undan snjóþyngdinni og lagðist gróður niður. Hafa margir vafalaust tekið eftir brotnum greinum og í einhverjum tilfellum féllu heilu trén, m.a. í Hlíðahverfi í Reykjavík og Hafnarfirði.
Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands, segir þetta þó ekki munu hafa nein teljandi áhrif á vöxt næsta árs.
„Almennt mun þetta ekki hafa nein áhrif á vöxt næsta árs. Það kann þó að vera tilefni til að snyrta trén og lagfæra,“ segir Brynjólfur og bendir á að vöxtur barrtrjáa ræðst af fyrra sumri á meðan lauftré svara strax veðri.
Þá segist Brynjólfur eiga von á góðu vaxtarári hjá barrtrjám á næsta ári í ljósi þess hve milt sumar var og haust.
