„Þetta mál hefur allt verið með ólíkindum,“ segir Kári Stefánsson, stofnandi Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) og fyrrverandi forstjóri fyrirtækisins.
Hæstiréttur ógilti í dag ákvörðun Persónuverndar um meint brot ÍE og Landspítala við söfnun og vistun blóðsýna í upphafi heimsfaraldurs COVID-19 og sneri við dómi Landsréttar.
Í samtali við mbl.is segir Kári að hann hafi átt von á þessari niðurstöðu og alla tíð litið á málið sem einkennilegt.
„Við vorum að vinna fyrir sóttvarnalækni og með sóttvarnalækni. Við vorum að greina veiruna í mjög stórum hluta þeirra sem sýktust, raðgreina hana og vinna úr gögnum fyrir sóttvarnalækni og landlækni — allt að beiðni sóttvarnalæknis.“
Kári bendir á að þrátt fyrir að vísindasiðanefnd hafi úrskurðað að um aðstoð við sóttvarnaryfirvöld væri að ræða, hafi Persónuvernd komist að gagnstæðri niðurstöðu og talið um vísindarannsókn að ræða.
„Við vorum algjörlega viss í okkar sök. Við vissum að við höfðum ekki brotið lög. Sóttvarnalæknir, landlæknir og ríkisstjórnin voru viss um það líka. Sá eini sem taldi annað var Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar,“ segir Kári.
Segir hann allt málið sérstaklega óheppilegt því Persónuvernd sem stofnun sé afskaplega mikilvæg. Þá sé mikilvægt að geta hennar til að hafa eftirlit með vernd persónuupplýsinga sé ekki skert.
„Þannig að þegar hún fer fram úr sér er hætta á að það valdi skemmd og minnki möguleika á því að halda utan um þessar persónuupplýsingar. Það finnst mér eiginlega merkilegast,“ segir Kári.
Bætir hann því við að Persónuvernd sé full af afskaplega fínu fólki sem hann er handviss um að vilji gera sitt besta.
„En ég held að það sé ljóst af þessu máli að Persónuvernd er ekkert öðruvísi en aðrar stofnanir að því leyti að fólki þar getur orðið á mistök.“
Kári segir málið ekki hafa haft teljandi áhrif á störf Íslenskrar erfðagreiningar en gagnrýnir dómsmálaráðuneytið og ríkislögmann fyrir að hafa látið málið ganga í gegnum öll dómstig.
„Það er hlutverk ríkislögmanns að hafa vit fyrir stofnunum sem leita til hans. Þetta mál var einfaldlega bull,“ segir hann og bætir við að dómur Hæstaréttar hafi verið augljós.
Engu að síður sneri Landsréttur við niðurstöðu héraðsdóms.
Hefði ekki getað brugðið til beggja vona?
„Í fullkominni einlægni þá er ég ekki enn búinn að átta mig á því hvað Landsréttur var að reykja til að komast að þessari niðurstöðu.“