Gefur kost á sér í 7. sæti í prófkjöri D-lista

Eggert Páll Ólafsson.
Eggert Páll Ólafsson.
Eggert Páll Ólason, héraðsdómslögmaður og formaður samtakanna Vinir einkabílsins, hefur ákveðið að gefa kost á sér í sjöunda sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna borgarstjórnarkosninganna næsta vor.

Eggert Páll segist í tilkynningu leggja mikla áherslu á bættar samgöngur innan borgarinnar og vilji tryggja greiðari umferð einkabíla í Reykjavík. Þá telji Eggert mikilvægt að lækka útsvar á borgarbúa umtalsvert á næsta kjörtímabili og auka valfrelsi borgarbúa, ekki síst í leikskóla- og grunnskólamálum. Jafnframt telji Eggert brýnt að bæta hag og aðstöðu aldraðra í borginni.

Eggert Páll lauk lögfræðiprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2003 og starfar nú sem lögfræðingur hjá KB banka, en starfaði áður sem aðstoðarmaður héraðsdómara við Héraðsdóm Reykjavíkur. Hann hefur tekið virkan þátt í störfum ungra sjálfstæðismanna undanfarin ár, var formaður utanríkismálanefndar Heimdallar árið 2004 og situr nú jafnframt í varastjórn hverfafélags sjálfstæðismanna í Austurbæ og Norðurmýri.

Nánari upplýsingar um framboðið má finna á vef framboðsins, eggertpall.is, og kosningaskrifstofa verður opnuð á næstu dögum.

mbl.is