Sjálfstæðismenn með meirihluta í Reykjavík samkvæmt könnun

Sjálfstæðisflokkurinn fengi hreinan meirihluta í Reykjavík ef kosið væri nú samkvæmt könnun sem Fréttablaðið birtir í dag. Flokkurinn fengi 47,2% en tapar 6,6 prósentna fylgi frá síðustu könnun blaðsins. Fylgi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs eykst mest frá síðustu könnun, eða úr 6,2% í 10,8%.

Fylgi Samfylkingarinnar mælist nú 30,9% sem er 2,4% minna en í síðustu könnun. Framsóknarflokkur mælist með 5,4% nú en var með 3,5% í síðustu könnun og Frjálslyndi flokkurinn 5,1% og hefur bætt við sig um 2,1 prósentu.

Ef þetta yrðu úrslitin fengju sjálfstæðismenn 8 borgarfulltrúa, Samfylking 5, VG 1-2 og Framsóknarflokkur 0-1.

mbl.is