Tillögu um að horfið verði frá flutningi Reykjavíkurflugvallar hafnað

Borgarstjórn Reykjavíkur felldi á fundi sínum í dag tillögu Ólafs F. Magnússonar, borgarfulltrúa F-lista, um að horfið yrði frá brottflutningi Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýrinni með 14 atkvæðum allra borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og R-lista, gegn atvæði Ólafs. Nafnakall var viðhaft við atkvæðagreiðsluna að ósk Ólafs.

Þegar niðurstaðan lá fyrir lagði Ólafur fram svohljóðandi bókun:
„Ljóst er að afstaða kjörinna fulltrúa í borgarstjórn til flugvallarins í Vatnsmýri er í litlu samræmi við þann mikla fjölda Reykvíkinga sem vill halda Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýrinni. Annað býður þeirri hættu heim að flugvöllurinn verði lagður niður og fluttur til Keflavíkur. Það myndi hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir samgöngu- og öryggismál í Reykjavík og á landinu öllu.”

mbl.is