Hugmyndir sjálfstæðismanna í Kópavogi um vöggustofur: Fagfólk sinni þjónustunni

Eftir Hrund Þórsdóttur hrund@mbl.is
GUNNAR Birgisson, bæjarstjóri og efsti maður á framboðslista sjálfstæðismanna í Kópavogi, segir aukna aðkomu fagfólks vera helsta muninn á þeirri þjónustu sem dagforeldrar veiti í dag og þeirri sem fyrirhugaðar vöggustofur myndu hafa í boði. Sjálfstæðismenn í Kópavogi kynntu stefnuskrá sína fyrir komandi kosningar á sunnudaginn og leggja þeir m.a. til að vöggustofum fyrir börn á aldrinum níu til tuttugu mánaða verði komið á í bænum.

Samfylkingin í Reykjavík leggur upp með svipaðar hugmyndir og talar um val um þjónustu fyrir börn frá lokum fæðingarorlofs. Samfylkingarmenn vilja meðal annars fjölga leikskólaplássum fyrir yngsta aldurshópinn og nýta þjónustumiðstöðvar borgarinnar í því skyni að aðstoða foreldra við að finna úrræði við hæfi. Sjálfstæðismenn í Reykjavík hafa að sama skapi rætt um að stofnaðar verði sérstakar smábarnadeildir í leikskólum í hverju hverfi og að framboð á þjónustu dagforeldra verði aukið, með auknum stuðningi við þá starfsemi.

"Við erum með annað úrræði í dag og það eru dagforeldrar, en það er ekki nóg," segir Gunnar. "Það er töluvert af börnum yngri en tuttugu mánaða á leikskólum. Við viljum tryggja foreldrum barna á aldrinum níu til tuttugu mánaða góða vistun fyrir börn þeirra."

Vandamál í öllum bæjarfélögum

Gunnar segir að stefnt sé að því að vöggustofurnar yrðu á svipuðu formi og leikskólarnir en að margar leiðir séu færar. "Annaðhvort verða einkaaðilar látnir sjá um þennan rekstur eða bærinn gerir það sjálfur," segir hann. "Kannski yrði byggt við leikskólana eða byggðar nýjar byggingar. Það eru margir möguleikar til að leysa þetta."

Gunnar segir að meira af fagfólki kæmi að rekstri á vöggustofum en tíðkist hjá dagforeldrum og segir foreldra þurfa að geta treyst því að vel sé séð um börn þeirra.

"Dagmæðurnar hafa gert þetta mjög vel en við viljum hafa þetta sem valkost," segir Gunnar.

Félag einstæðra foreldra hefur bent á að úrræði vanti fyrir börn á aldrinum sex til níu mánaða og segir Gunnar hugmyndir sjálfstæðismanna almenns eðlis. Foreldrar þessa aldurshóps ættu einnig að geta nýtt þessa fyrirhuguðu þjónustu.

"Við erum að tala um að leysa vandamál foreldra, hvort sem það eru sambýlingar, sem við notum í viðmiðunum, eða einstæðir foreldrar," segir hann. "Þetta er ekki bara vandamál hjá okkur heldur í öllum öðrum bæjarfélögum líka."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »