Stefnumótun byggir á Þróunaráætlun miðborgar segir formaður umhverfisráðs

Árni Þór Sigurðsson, formaður umhverfissviðs Reykjavíkurborgar, segir að stefnumótun í bílastæðamálum byggi á Þróunaráætlun miðborgar sem samþykkt var fyrir nokkrum árum og hagsmunaaðilar í miðborginni áttu meðal annarra þátt í að móta. Fyrr í dag sendi stjórn Laugavegssamtakanna frá sér fréttatilkynningu þar sem breytingu á bílastæðastefnu borgarinnar var gagnrýnd.

„Vegna yfirlýsingar Laugavegssamtakanna um boðaða fækkun bílastæða í miðborginni er mikilvægt að taka fram:
Hlutverk samgöngustefnunnar sem borgarstjórn hefur samþykkt er þríþætt:
· Að tryggja greiðar samgöngur án þess að ganga á verðmæti, svo sem umhverfi, heilsu og borgarbrag.
· Að uppfylla fjölbreyttar ferðaþarfir borgarbúa á jafnréttisgrundvelli.
· Að stuðla að fullnýtingu samgöngukerfa borgarinnar og um leið að stuðla að bættu umhverfi, góðri heilsu og aðlaðandi borgarbrag.

Stefnumótun í bílastæðamálum byggir á Þróunaráætlun miðborgar, sem samþykkt var fyrir nokkrum árum og hagsmunaaðilar í miðborginni áttu meðal annarra þátt í að móta. Þróunaráætlunin tekur til landnotkunar í miðborginni. Sett er fram bílastæðastefna þar sem lögð er áhersla á skiptingu bílastæða í langtíma- og skammtímastæði. Bílastæði skulu sem flest vera í bílastæðahúsum og staðarval þessara húsa miðast við góð tengsl við umferðaræðar, vinnustaði, verslun og þjónustu. Þar er einnig mörkuð sú stefna, að fækka skuli bílastæðum í göturými í miðborginni. Á hinn bóginn kemur síðan einnig fram að uppbygging nýrra bílastæða í miðborginni skuli vera í bílastæðahúsum.

Hvergi í stefnunni er það markmið sett fram að fækka bílastæðum í miðborginni, einungis lögð áhersla á að þau fari í vaxandi mæli í bílastæðahús. Fullyrðingin í yfirlýsingu Laugavegssamtakanna á því ekki við rök að styðjast og byggir að því er virðist á rangtúlkun á samþykktri stefnumótun." Undir þetta ritar Árni Þór Sigurðsson, form. Umhverfisráðs Reykjavíkur.

mbl.is