R-listinn klofnaði við afgreiðslu styrks til Fram

Meirihluti Reykjavíkurlistans klofnaði í borgarráði við afgreiðslu á styrk til knattspyrnufélagsins Fram og varð til nýr meirihluti fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Alfreðs Þorsteinssonar, sem samþykkti 25 milljón króna framlag til félagsins á árinu 2009, til viðbótar 50 milljóna króna framlagi á árunum 2007 og 2008.

Á fundi borgarráðs á fimmtudag var tillögu Stefáns Jóns Hafsteins um að vísa erindinu til meðferðar við gerð fjárhagsáætlunar felld með 4 atkvæðum gegn 3. Tillaga Alfreðs um framlagið var síðan samþykkt með atkvæði hans og fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Ekki eðlileg hækkun

Fulltrúar Reykjavíkurlistans bókuðu í framhaldinu að forgangsröðun verkefna af hálfu íþrótta- og tómstundaráðs liggi fyrir í samþykkt borgarstjórnar á þriggja ára áætlun. "Þar er gert ráð fyrir 25 mkr. byggingarstyrk til Fram árin 2007 og 2008, alls 50 mkr. Engin tillaga hefur komið frá íþrótta- og tómstundaráði um aukið framlag. Því er ekki eðlilegt að borgarráð, að tillögu einstaks borgarráðsfulltrúa, samþykki 50% hækkun byggingarstyrksins."

Alfreð Þorsteinsson bókaði í framhaldinu að borgaryfirvöld hefðu staðið myndarlega að stuðningi við framkvæmdir íþróttafélaganna í Reykjavík og samþykkt nýlega styrkveitingar til þeirra, sem nemi hátt á annan milljarð króna. "Við afgreiðslu málsins í borgarráði 24. apríl sl.var frestað að afgreiða málefni Knattspyrnufélagsins Fram, sem með rökstuddri greinargerð hafði sýnt fram á, að tillögur ÍTR nægðu ekki til að fjármagna framkvæmdir félagsins. Það er því eðlilegt, að borgarráð samþykki viðbótarframlag til félagsins."

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins bókuðu síðan að þeir tækju undir bókun Alfreðs.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »