Fylgi Sjálfstæðisflokks og VG eykst

Fylgi Sjálfstæðisflokksins i Reykjavík hefur aukist frá í gær samkvæmt nýrri raðkönnun Gallup fyrir Ríkisútvarpið. Mælist fylgi flokksins nú 45% en var 43% í gær. Fær flokkurinn samkvæmt könnuninni 8 borgarfulltrúa og þar með meirihluta.

Gallup kannar fylgi flokkanna í Reykjavík daglega fram að kosningum. Úrtakið er alltaf 800 manns, 400 fyrstu detta út og 400 nýir bætast við á hverjum degi. Þannig er hægt að mæla hreyfingu á fylginu.

Fylgi Samfylkingarinnar mældist rúm 27% í dag en var 32% í könnun Gallup í gær. Samkvæmt þessu fær flokkurinn 4 borgarfulltrúa. Vinstrihreyfingin-grænt framboð mældist með tæplega 15% fylgi í dag en var með 11% í gær. Flokkurinn fær samkvæmt þessu 2 borgarfulltrúa. Fylgi Frjálslynda flokksins mælist 8,1% í dag en var um 10% í gær. Flokkurinn fær 1 fulltrúa samkvæmt þessu. Framsóknarflokkurinn var með 3,9 í könnun í gær en mælist nú með 4,2%. Það dugar ekki til að koma inn borgarfulltrúa. Síðasti maður inn er áttundi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins en litlu munar á honum og fimmta manni Samfylkingar sem er næstur inn.

Af 800 manna úrtaki náðist í 62% í dag og 85% þeirra tóku afstöðu til framboðslista.

mbl.is

Bloggað um fréttina