Hvött til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn

Una María Óskarsdóttir, sem skipar þriðja sætið á lista Framsóknarflokksins í Kópavogi, fékk símtal frá kosningaskrifstofu Sjálfstæðisflokksins þar sem hún var hvött til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í bæjarstjórnarkosningunum.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa starfað saman í meirihluta í Kópavogi undanfarin ár. Una María segist vera undrandi á vinnubrögðum samstarfsflokks síns í kosningabaráttunni. Sjálfstæðismenn hafi að undanförnu hringt í íbúa Kópavogs og tekið allan heiður af uppbyggingu í bænum síðustu 15 ár. Una María segir mjög sérstakt "ef sjálfstæðismenn eru farnir að segja sínu úthringingafólki að það eigi að segja við fólk að þeir eigi allan heiðurinn af uppbyggingu í bænum þegar Gunnar I. Birgisson hefur einungis verið bæjarstjóri í eitt ár."

Hún sagði ennfremur að fleiri aðilar hefðu komið að máli við sig og haft svipaða sögu að segja og sagði hún marga vera slegna yfir slíkum hringingum þar sem þetta væri alls ekki rétt. Una María ætlaði ekki að leita viðbragða hjá Sjálfstæðisflokknum þar sem henni ofbyði þessi vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins í þessu máli og fleirum. Aðspurð hvort henni hafi ekkert litist á stefnu samstarfsflokksins þegar hún var kynnt í símtalinu sagði hún nei, hún ætlaði að kjósa Framsóknarflokkinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert