Allir keppa um fimmtánda borgarfulltrúann

Eftir Brján Jónasson brjann@mbl.is

Margt bendir til þess að kosninganóttin í Reykjavík verði sú mest spennandi síðan 1978, og miðað við skoðanakannanir virðist sem allir fimm flokkarnir keppi um fimmtánda borgarfulltrúann, segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Ólafur segir að þó dálítill munur sé á þeim skoðanakönnunum sem birst hafi undanfarið gefi þær í raun allar sömu heildarmyndina. "Þó að munurinn sé einhver prósentustig, bæði á milli dagskannana Gallup, og eins hjá Fréttablaðinu og Félagsvísindastofnun, þá er þetta í sjálfu sér meira og minna innan skekkjumarka. Það má ekki túlka þessar skoðanakannanir of bókstaflega, í þeim er alltaf falin óvissa."

Hann segir ekki endilega best að túlka einstakar kannanir með þröngum hætti, en þegar það sé gert virðist t.d. slagurinn vera á milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Gallup-könnununum, en Samfylkingin blandi sér í þann slag samkvæmt könnun Fréttablaðsins. Það sé þó lítið vit í að lesa þannig í kannanirnar, og betra að reyna að sjá heildarsamhengið sem þær sýni.

"Eðlilegasta niðurstaðan er sú að þetta sé allt fremur opið og allir sláist um fimmtánda manninn. Ef menn vilja þetta eitthvað nákvæmara verður bara að velja sér könnun og ákveða þannig á hverjum þeir taki mest mark," segir Ólafur. Hann segir það þó sína tilfinningu að það séu Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking sem eigi mesta möguleika í þeirri baráttu, en það sé ekki hægt að fullyrða eingöngu út frá könnununum.

Kosninganóttin ekki eyðilögð af könnunum

Spennan ætti að geta haldið áfram fram eftir nóttu, sér í lagi ef fyrstu tölur benda til þess að mjótt sé á mununum. Ólafur bendir á að vel sé þekkt að fylgi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningum sveiflist til um 2% í talningu, það geti auðveldlega fært til fulltrúa. "Það er sem sagt góð von til þess að skoðanakannanir muni ekki eyðileggja þessa kosninganótt fyrir mönnum, eins og stundum hefur verið kvartað yfir," segir hann.

"Það gæti vel verið að þetta yrðu mest spennandi kosningarnar síðan 1978, þegar meirihluti Sjálfstæðisflokksins féll. Þá var áttundi sjálfstæðismaðurinn inni alla nóttina, og hann féll í utankjörfundaratkvæðum einhverntíma undir morgun. Þá var það þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hefði þurft að bæta við sig tæplega 100 atkvæðum til að áttundi maðurinn væri inni. Þegar þetta er svona knappt veit enginn úrslitin fyrr en búið er að telja öll atkvæðin," segir Ólafur.

Hann nefnir einnig að í síðustu borgarstjórnarkosningum hafi Ólafur F. Magnússon, efsti maður á lista Frjálslynda flokksins, verið úti fram eftir allri kosninganóttinni, en komist inn á síðustu atkvæðunum. Það hafi þó einkum verið spenna fyrir Frjálslynda, því munurinn á Reykjavíkurlistanum og Sjálfstæðisflokknum var of mikill til að þessi breyting hefði stór áhrif.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »