"Fyrstu tölur eru stórkostlegar"

Rætt við Ólaf F. Magnússon eftir að fyrstu tölur birtust.
Rætt við Ólaf F. Magnússon eftir að fyrstu tölur birtust. mbl.is/ÞÖK

„Fyrstu tölur eru stórkostlegar," sagði Ólafur F. Magnússon, oddviti Frjálslyndra og óháðra í Reykjavík, eftir að fyrstu tölur lágu fyrir. Samkvæmt þeim nær F-listinn inn einum manni í borgarstjórn. Ólafur benti á að Frjálslyndir og óháðir væru með 4.180 atkvæði, í fyrstu talningu og rúmlega 10% atkvæða. „Það eru fleiri atkvæði en töldust alls upp úr kössunum síðast," sagði hann.

„Við áttum okkur vel á því að það er ekki enn þá búið að telja lokaatkvæðin. Og við höfum reynslu af því að það borgar sig ekki að fagna sigri fyrr en allt er í höfn," sagði hann. „En ég geri mér ekki miklar vonir um að halda þessu háa fylgi í utankjörfundaratkvæðunum," sagði Ólafur, og kvaðst vísa til reynslunnar í síðustu kosningum. Ólafur kvaðst vonast til þess að einn flokkur næði ekki hreinum meirihluta í borginni. "Ég held að það sé lýðræðinu hollast," sagði hann. Ólafur kvaðst jafnframt gera sér vonir um að F-listinn kæmi að myndun næsta meirihluta í Reykjavík. Þannig kæmu inn nýir vindar í borgina. Spurður með hverjum hann gæti hugsað sér að vinna með í meirihluta, kæmi til þess, sagði hann: "Ég get hugsað mér vel að vinna með báðum aðilum. Ég slæ ekki á útréttar hendur fyrirfram. Ég get sagt að bæði Vilhjálmur og Dagur eru ágætir félagar mínir og njóta trausts míns þannig að ég get alveg tekist málefnalega á um meirihlutamyndun við þessa aðila ef á reynir. Ég tel það skyldu mína að athuga það. Til þess hef ég fengið umboð. Eina sem ég get lofað kjósendum mínum er það að ég svík ekki þau málefni sem ég stend fyrir."
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert