Ólafur segir sendiboða frá Vilhjálmi hafa komið til sín á kjördag

Ólafur F. Magnússon ræðir við fréttamenn í dag.
Ólafur F. Magnússon ræðir við fréttamenn í dag. mbl.is/Eggert

Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-lista, sagði í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld, að klukkan 6 á laugardag hefði komið til hans maður með skilaboð frá Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, oddvita sjálfstæðismanna og væntanlegum borgarstjóra, um að hann vildi ræða við Ólaf eftir kosningarnar um myndun nýs meirihluta og jafnframt að væntanlega yrði hægt að ná samkomulagi um flugvallarmálið, þ.e. Vatnsmýrarkost í breyttri mynd. Jafnframt að Ólafur gæti orðið forseti borgarstjórnar og flokkurinn fengi formann borgarráðs í tvö ár.

Ólafur vildi ekki segja hver sendiboðinn var og sagðist hafa lofað því að halda nafni hans leyndu.

Vilhjálmur sagði hins vegar í Kastljósinu, að Ólafur hefði óskað eftir því í gær að hitta sig. Eftir viðræður í gær hefðu þeir ákveðið að hittast eftir hádegið í dag en ekki nefnt neinn tíma. Í morgun hefðu málin hins vegar verið rætt í hópi borgarfulltrúa sjálfstæðismanna, og niðurstaðan hefði verið sú að ekki væri nægilegur samhljómur milli þessara flokka til að búa til öflugan meirihluta, sem gæti komið ákveðnum verkum í framkvæmd. Þetta hefði hann tilkynnt Ólafi í dag.

Vilhjálmur sagðist ekki hafa farið fram á fund með frjálslyndum á kjördag en líklega hefðu menn verið að tala saman; allir hefðu verið að tala við alla.

Ólafur sagði í Kastljósinu, að Vilhjálmur hefði dregið F-listafólk á asnaeyrunum og settar hefðu verið á svið viðræður til að tryggja það samstarf í sessi, sem nú sé orðin staðreynd. Sagði Ólafur, að Vilhjálmur hefði sýnt af sér einstakan pólitískan refshátt og eftir þessa framkomu gæti hann ekki óskað honum til hamingju með að hafa myndað nýjan meirihluta.

mbl.is