Ómar segist ekki hafa óskað eftir skriflegu tilboði Samfylkingar

„Ég hef aldrei óskað eftir neinu skriflegu tilboði frá Samfylkingunni. Það liggur alveg ljóst fyrir," sagði Ómar Stefánsson, efsti maður á lista Framsóknarflokksins í Kópavogi, um gagnrýni Samfylkingarinnar í Kópavogi á framgöngu flokksins eftir að úrslit kosninganna lágu fyrir.

Í yfirlýsingu frá Samfylkingunni í Kópavogi í dag er fullyrt, að meðan á viðræðum sjálfstæðismanna og framsóknarmanna um myndun meirihluta í bæjarstjórn Kópavogs stóð, hafi Framsóknarflokkurinn óskað eftir skriflegu tilboði oddvita Samfylkingarinnar með hugmyndum flokksins um skiptingar í embætti og sérstaklega hvort Samfylkingin væri tilbúin að gefa framsóknarmönnum bæjarstjórastólinn eftir ef til samstarfs kæmi.

„Ég er oddviti flokksins og ég stýrði þeim umræðum sem fóru í gang. Hvað aðrir eru að gera skiptir mig engu máli," sagði Ómar, þegar hann var spurður hvort einhverjir aðrir í Framsóknarflokknum hefðu haft samband við Samfylkinguna.

mbl.is