Segja Framsóknarflokk í Kópavogi hafa viljað halda öllum volgum

Oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi segir í tilkynningu, að ljóst sé að frá byrjun hafi enginn vilji verið hjá framsóknarmönnum í bænum til að mynda nýjan meirihluta með Samfylkingu og Vinstri-grænum, en samt sem áður hafi þeir kosið að halda öllum aðilum volgum í þeirri von að þannig myndu þeir bera mest úr bítum.

Tilkynningin er eftirfarandi:

    Nú liggur fyrir að oddvitar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa ákveðið áframhaldandi meirihlutasamstaf í bæjarstjórn Kópavogs. Samfylkingin í Kópavogi hefur leitað allra leiða til að ná fundi með Ómari Stefánssyni oddvita framsóknarmanna undanfarna daga með það að markmiði að ræða hugsanlegt meirihlutasamstarf Framsóknarflokks, Vinstri Grænna og Samfylkingar. Þær tilraunir okkar hafa ekki borið árangur. Á meðan á viðræðum sjálfstæðismanna og framsóknarmanna stóð óskaði Framsóknarflokkurinn eftir skriflegu tilboði oddvita Samfylkingarinnar með hugmyndum okkar um skiptingar í embætti þá sérstaklega hvort við værum tilbúin að gefa þeim bæjarstjórastólinn eftir ef til samstarfs kæmi.

    Samfylkingin hafnar algjörlega slíkum vinnubrögðum, við tökum ekki þátt í meirihlutaviðræðum þar sem við skilum inn lokuðum tilboðum og öllum málefanalegum viðræðum er hafnað. Slíkt minnir meira á þátttöku í lokuðu útboði án útboðsgagna og á ekkert skylt við málefnalegar lýðræðislegar viðræður. Því er ljóst að frá byrjun hefur enginn vilji verið hjá framsóknarmönnum í Kópavogi að mynda nýjan meirihluta með Samfylkingu og Vinstri Grænum en samt sem áður hafa þeir kosið að halda öllum aðilum volgum í þeirri von að þannig myndu þeir bera mest úr bítum.

    Nú liggur fyrir að Samfylkingin hefur styrkt stöðu sína í bæjarstjórn Kópavogs og þrátt fyrir að verða áfram í minnihluta næstu 4 árin munum við berjast fyrir velferð og bættum hag Kópavogsbúa og veita meirihlutanum traust aðhald í öllum málum.

    Guðríður Arnardóttir,
    oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert