Steinunn Valdís býður sig fram í prófkjöri Samfylkingarinnar

Steinunn Valdís Óskarsdóttir
Steinunn Valdís Óskarsdóttir

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hefur ákveðið að gefa kost á sér til forystustarfa fyrir Samfylkinguna í komandi þingkosningum. Steinunn Valdís sækist eftir stuðningi í 4. sæti á lista sem kosið verður til í sameiginlegu prófkjöri beggja kjördæma í Reykjavík þann 11. nóvember nk.

Í tilkynningu frá Steinunni Valdísi kemur fram að eftir að hafa starfað í meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur í tólf ár, þar af tæplega tvö ár sem borgarstjóri Reykvíkinga telji hún sig hafa þá reynslu og þekkingu sem til þarf.

„Í sumar hefur fjöldi fólks rætt við mig og hvatt mig til framboðs og fyrir það vil ég þakka. Af þeim samtölum er augljóst að fólk innan og utan Samfylkingar er orðið óþreyjufullt að sjá breytingar í landsstjórninni enda hefur ríkisstjórnin sýnt það í hverju málinu á fætur öðru að hún hefur misst tengslin við almenning á Íslandi.

Næstu Alþingiskosningar eru afar mikilvægar fyrir Samfylkinguna. Það er brýn þörf á að Samfylkingin leiði þær breytingar sem nauðsynlegt er að gera í íslensku samfélagi þar sem misskipting vex stöðugt og sá jöfnuður sem hingað til hefur verið einn helsti styrkleiki íslensks samfélags er á undanhaldi.

Ég vil leggja mitt af mörkum í næstu þingkosningum og gef því kost á mér á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík í Alþingiskosningunum 2007," að því er segir í fréttatilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina