Guðmundur Steingrímsson í framboð fyrir Samfylkinguna

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson

Guðmundur Steingrímsson blaðamaður og tónlistarmaður gefur kost á sér í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Guðmundur óskar eftir fjórða sætinu, sem er þingsæti.

Guðmundur er BA í íslensku og heimspeki frá Háskóla Íslands og með meistaragráður í heimspeki frá Uppsala í Svíþjóð og Oxford á Englandi. Hann var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands 1995-96 og sat í háskólaráði í tvö ár. Fimmtán ára að aldri varð hann blaðamaður á Tímanum og hefur starfað við blaðamennsku með hléum alla tíð síðan, síðast á Fréttablaðinu. Hann hefur undanfarin ár látið skoðanir sínar á hinum ýmsu málefnum í ljós á baksíðu Fréttablaðsins.

Guðmundur hefur starfað við auglýsingagerð sem hugmynda- og textasmiður, og í útvarpi og sjónvarpi, sem dagskrárgerðarmaður og þáttastjórnandi. Hann var lengi pistlahöfundur í Víðsjá á Rás 1 og undanfarið hefur hann tekið vikulega til máls í morgunútvarpi Rásar 2. Með hljómsveit sinni Ske (áður Skárren ekkert) hefur Guðmundur samið tónlist við fjölda leikhúsuppfærsla og dansverka auk þess að gefa út nokkurn fjölda geisladiska. Árið 2003 sendi hann frá sér skáldsöguna Áhrif mín á mannkynssöguna og er langt kominn með skrif á annarri.

Guðmundur er 34ja ára að aldri, fæddur og uppalinn í Garðabæ. Hann á eina dóttur, Eddu Liv, og er í sambúð með Alexíu Björgu Jóhannesdóttur leikkonu.

mbl.is