Segir menn í öðrum kjördæmum ekki eiga að skipta sér af uppstillingu

Eygló Harðardóttir, sem endaði í 4. sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi um helgina, sendir Birni Inga Hrafnssyni, formanni borgarráðs Reykjavíkur, tóninn á vefsíðu sinni og segir að ekki hafi verið hefð í Framsóknarflokknum að menn séu að skipta sér af prófkjörum eða uppstillingum í öðrum kjördæmum.

Eygló segir, að nóttin sé varla liðin fyrr en karlarnir í flokknum, og jafnvel öðrum kjördæmum, séu farnir að lýsa yfir skoðunum sínum á hvernig listi framsóknarmanna í Suðurkjördæmi eigi að líta út en Hjálmar Árnason, sem endaði í þriðja sæti í prófkjörinu, ætlar ekki að taka sætið.

Björn Ingi sagði á heimasíðu sinni í gærkvöldi, að brotthvarf Hjálmars leiði hugann að stöðu Reykjaness í Suðurkjördæmi en frambjóðendur þaðan hafi átt erfitt uppdráttar í prófkjörum Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Megi leiða líkum að því að reynt verði að finna sterkan Suðurnesjamann ofarlega á lista í endanlegri tillögu kjörnefndar til þess að vega upp brotthvarf Hjálmars.

Eygló segir í grein undir yfirskriftinni Karlaplott og þúfupólitík, að hún hafi gefið kost á sér sem fulltrúi alls kjördæmisins, allt frá Sandgerði yfir til Lónsins. Þetta hafi framsóknarmenn kunnað að meta og hún hlotið þriðju flest atkvæðin í prófkjörinu. Þau atkvæði hafi komið alls staðar úr kjördæminu.

„Í prófkjörinu greiddu kjósendur einstaklingum atkvæði, ekki sveitarfélögum eða svæðum. Sú staðreynd að einn frambjóðandi kýs að taka ekki það sæti sem honum bar á listanum gefur hvorki honum né öðrum sjálfdæmi um hver skuli taka það sæti," segir Eygló.

Heimasíða Eyglóar

mbl.is

Bloggað um fréttina