Heildarsamtök aldraðra og fatlaðra koma ekki að framboðum

Landssamband eldri borgara, Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra, og Öryrkjabandalag Íslands hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem kemur fram, að heildarsamtök aldraðra og fatlaðra komi á engan hátt að undirbúningi framboða til Alþingis, sem kynnt hafi verið sem framboð öryrkja og aldraðra.

„Samtök aldraðra og fatlaðra starfa á þverpólitískum grundvelli að hagsmunamálum félagsmanna sinna og hafa engin áform uppi um framboð til Alþingis í kosningunum í vor. Undirritaðir leggja áherslu á kröfuna um eitt samfélag fyrir alla sem og kjörorðin ekkert um okkur án okkar og hvetjum á þeim grunni öryrkja og aldraða til að vera virka þátttakendur á vettvangi stjórnmálanna, hvar í flokki sem þeir standa, og sinna þannig borgaralegum réttindum og skyldum sem fullgildir þátttakendur í samfélaginu," segir í yfirlýsingunni.

Undir hana skrifa Ólafur Ólafsson, formaður Landssambands eldri borgara, Ragnar Gunnar Þórhallsson, formaður Sjálfsbjargar og Sigursteinn Másson, formaður Öryrkjabandalags Íslands.

mbl.is