Magnús Þór kjörinn varaformaður Frjálslynda flokksins

Magnús Þór Hafsteinsson lýstur varaformaður Frjálslynda flokksins. Guðjón A. Kristjánsson …
Magnús Þór Hafsteinsson lýstur varaformaður Frjálslynda flokksins. Guðjón A. Kristjánsson og Margrét Sverrisdóttir sitja við borðið. mbl.is/Árni Sæberg

Magnús Þór Hafsteinsson, alþingismaður var endurkjörinn varaformaður Frjálslynda flokksins á landsfundi í dag. Alls greiddu 687 manns atkvæði í varaformannskjöri flokksins og þar af voru 683 gild. Magnús Þór fékk 369 atkvæði eða 54% en Margrét Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri, fékk 314 atkvæði eða 46%.

Magnús Þór sagði eftir kjörið, að þetta hefði verið hörð og spennandi barátta og vitað hefði verið fyrirfram að hún yrði tvísýn. Magnús sagði að nú vonaði hann að menn gætu horft fram á veginn og stefnt að því að vinna góðan sigur í kosningunum í vor. Sagði hann Frjálslynda flokkinn reiðubúinn að takast á við framtíðina.

Margrét Sverrisdóttir sagði, að hún teldi sig geta gengið af fundinum stolt og keik því engu hefði munað í kjörinu. Hún sagðist þó viðurkenna að niðurstaðan ylli sér vonbrigðum og eins að þurfa hugsanlega að sjá á bak hennar góða flokki. Boðaði hún síðan stuðningsfólk sitt til fundar á mánudaginn klukkan 18.

Margrét sagði aðspurð við blaðamenn eftir að niðurstaðan lá fyrir, að hún ætlaði að ræða málið við stuðningsmenn sína eftir helgina áður en hún tæki ákvörðun um hvort hún starfaði áfram í flokknum, en hún hafði ekki viljað gefa yfirlýsingar um það fyrir landsfundinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert