Ragnar Arnalds: Hugmyndir um yfirráð Íslendinga ótryggar

AP

Ragnar Arnalds, fulltrúi VG í Evrópunefndinni sem skipuð var til að kanna framkvæmd EES-samningsins, önnur tengsl Íslands og Evrópusambandsins, sagði á blaðamannafundi nefndarinnar í dag að mikill meirihluti nefndarinnar væri andvígur hugsanlegri aðild Íslands að Evrópusambandinu þar sem fimm nefndarmenn taki skýra afstöðu gegn aðild, tveir taki skýra afstöðu með aðild og tveir taki ekki skýra afstöðu. Fram kemur í skýrslu nefndarinnar að ekki hafi staðið til að nefndin freistaði þess að komast að sameiginlegri niðurstöðu varðandi hugsanlega aðild Íslendinga.

Ragnar sagði á blaðmannafundinum að skýrt hefði komið fram við upplýsingaöflun nefndarinnar að sú hugmynd sem lengi hafi lifað á Íslandi, að mögulegt væri að tryggja yfirráð Íslendinga yfir fiskveiðum í íslensku landhelginni í aðildarviðræðum væri óraunhæf.

Þá sagði hann þá sem aðhyllist aðild m.a. hafa vísað til þess að við úthlutun veiðiheimilda innan sambandsins hafi verið tekið tillitt til sögulegrar veiðireynslu sem þeir telji að muni tryggja hagsmuni Íslendinga. Þessi regla hafi hins vegar ekkert tryggt varanlegt gildi þar sem hægt sé að fella hana úr gildi með meirihlutasamþykkt ráðherraráðs ESB. Það sé áhætta sem sumir séu greinilega tilbúnir til að taka en aðrir ekki.

mbl.is