Baráttusamtökin í öllum kjördæmum

Baráttusamtökin, Baráttusamtök eldri borgara og öryrkja (BEÖ) og Höfuðborgarsamtökin (HBS), tilkynntu í gær að þau myndu bjóða fram lista í öllum kjördæmum í alþingiskosningunum í maí undir kjörorðunum jöfnuður, lýðræði og velferð, og stefndu að framboði í sem flestum sveitarstjórnum í sveitarstjórnarkosningunum 2010.

Arndís H. Björnsdóttir, talsmaður BEÖ, og Örn Sigurðsson, formaður HBS, kynntu stofnun nýju stjórnmálasamtakanna á blaðamannafundi á Grand hóteli í gær. Fram kom að unnið væri að því að skipa 10 manna stjórn og kæmi formaður frá BEÖ fyrsta árið en frá HBS annað árið og þannig áfram á víxl. Nefndir yrðu skipaðar eftir þörfum og ætti jafnræði að ríkja á milli fylkinga í þeim.

Bætt staða

Helsta baráttumálið er að bæta stöðu eldri borgara og aldraðra. Samtökin vilja að tekjur hjá lífeyris- og bótaþegum, öryrkjum og þeim sem unnið hafa heima við barnauppeldi og ekki aflað lífeyrisréttinda verði ekki lægri en 210.000 krónur á mánuði miðað við núverandi launavísitölu og hækki í samræmi við hana.

Geti lífeyrisþegi unnið skerðist launin ekki upp að 500.000 kr. tekjum á mánuði.

Skattleysismörk verði að lágmarki 150.000 kr. og hækki í samræmi við launavísitölu.

Lagt er til að þjónusta við aldraða og öryrkja verði færð yfir til sveitarfélaganna og jöfnunarsjóður þeirra efldur. Lífeyrir verði skattlagður sem fjármagnstekjur.

Flugvöll á Hólmsheiði

Í málefnaskránni kemur fram að samtökin vilja að flugvöllur verði byggður á Hólmsheiði fyrir árslok 2011. Það verði gert með því að selja ríkislóðir í Vatnsmýrinni, þar sem flugvöllurinn er, fyrir um 35 milljarða og þar af fari 13 milljarðar í flugvöll á Hólmsheiði, um þrír milljarðar í fjármögnun frumkvöðlasjóða á landsbyggðinni og um 19 milljarðar í fjármögnun þjóðvega.

Útþensla höfuðborgarinnar verði stöðvuð og umhverfis-, náttúruverndar- og skipulagsáætlun samræmd fyrir allt landið.

Atkvæðisréttur verði jafnaður og fjölgað í sveitarstjórnum. Ennfremur verði teknar upp þjóðaratkvæðagreiðslur í sveitarstjórnum og á landsvísu óski 5% kjósenda þess.

Strandbyggðir fái eðlilegan aðgang að aðliggjandi fiskimiðum og kvótinn verði þjóðareign en greitt af honum eðlilegt afgjald.

Fram kom hjá fulltrúum Baráttusamtakanna að réttmætar óskir skjólstæðinga þeirra með lök kjör gætu leitt til 20 til 25 milljarða útgjaldaauka á ári. Til að mæta þeim kostnaði kæmi aukið afgjald af aflakvótanum, lækkuð eftirlaun þingmanna og ráðherra, hagræðing í ríkisrekstri, 8% hátekjuskattþrep á mánaðartekjur yfir 700.000 kr., 10% skattur á fjármagnstekjur yfir 150.000 kr. á mánuði og 14% skattur á tekjur yfir 700.000 kr. á mánuði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert