„Jarðvegur jafnréttis þegar til staðar"

Þórólfur Árnason með Steinunni Valdísi Óskarsdóttur.
Þórólfur Árnason með Steinunni Valdísi Óskarsdóttur. mbl.is

Þórólfur Árnason, forstjóri SKÝRR, sagði í umræðum um Jafnrétti í raun á landsfundi Samfylkingarinnar í dag að ójafnar aðstæður karla og kvenna á vinnumarkaði og heimili væri heimatilbúið vandamál karla sem velji að vera í vinnunni þar til kvöldmaturinn sé tilbúinn. Þá sagði hann nóg hafa verið rætt um að bæta þurfi jarðveginn fyrir jafnrétti kynjanna. Jarðvegurinn sé þegar tilbúinn og hann hafi reynt það í sínum störfum að ekkert mál sé að manna fyrirtæki með konum í stjórnunarstöðum. Þá hafi honum ekki reynst nokkurt mál að jafna hlutfall karla og kvenna í stjórnunarstöðum í þeim fyrirtækjum sem hann hafi starfað við. Slíkt hafi tekið mánuði en ekki ár.

Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis, sagði við sama tækifæri að afnám launaleyndar sé forsenda launajafnréttis kynjanna. Slíkt muni vissulega ýta undir öfund í samfélaginu en að það sé eina raunhæfa leiðin til að stuðla að launajafnrétti kynjanna.

Bjarni sagði jafnframt að launajafnrétti verða að vera árangurstengt og að ekki megi einungis bara saman kyn starfsmanna þegar laun þeirra séu borin saman.

Einnig sagði hann mikilvægt að Íslendingar tileinki sér viðhorf þeirra þjóða sem líta á gott fjölskyldulíf sem lífsgæði sem sjálfsagt sé að hafi forgang fram yfir annan munað og bæði karlar og konur velji að leggja áherslu á.

Jóhanna Sigurðardóttir, alþingismaður og fyrrum félagsmálaráðherra, þakkaði Þórólfi sérstaklega ummæli hans og sagði að ef fleiri stjórnendur töluðu og framkvæmdu eins og hann værum við komin lengra í jafnréttismálum en raun sé á.

Einnig kvað Þórunn Sveinbjarnardóttir alþingismaður sér hljóðs og lýsti stuðningi við það sem fram hefði komið í umræðunum um það að að auðugt fjölskyldulíf væri val og að það ætti að vera val sem bæði karlar og konur á vinnumarkaðnum ættu að geta verið stolt af að gera að forgangsatriði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert