Búið að opna kjörstaði um allt land

Biðröð á kjörstað fyrir nokkrum árum.
Biðröð á kjörstað fyrir nokkrum árum.

Kjörstaðir í alþingiskosningunum voru opnaðir klukkan 9 í dag og verða þeir opnir til klukkan 22 í kvöld en fljótlega eftir það verða fyrstu tölur birtar í kjördæmunum sex. Ríflega 221 þúsund manns hafa kosningarétt um land allt og eru konur heldur fleiri en karlar. Þar af fá nú rúmlega 17 þúsund manns að kjósa til Alþingis í fyrsta skipti.

Um upphaf og lok kjörfundar gilda þær reglur að kjörstaðir skulu opnaðir á bilinu 9–12 árdegis og skal sveitarstjórn eða yfirkjörstjórn auglýsa nákvæma tímasetningu með hæfilegum fyrirvara. Meginreglan við lok kjörfundar er að atkvæðagreiðslu megi ekki slíta fyrr en átta klukkustundir eru liðnar frá því að kjörfundur hófst og ekki fyrr en hálf klukkustund er liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram. Frá þessari meginreglu er þó sú undantekning að atkvæðagreiðslu megi slíta ef allir sem eru á kjörskrá hafa greitt atkvæði og eftir fimm klukkustundir ef öll kjörstjórnin og umboðsmenn eru sammála um það, enda sé hálf klukkustund liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram. Kjörfundi skal þó slitið eigi síðar en kl. 22 á kjördag.

Í Suðurkjördæmi eru 30.597 þúsund manns á kjörskrá og fjölgar um rúm tvö þúsund frá síðustu kosningum. Atkvæðin verða talin í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.

Í Suðvesturkjördæmi, langfjölmennasta kjördæminu, eru 54.584 á kjörskrá og fjölgar umtalsvert frá síðustu kosningum, eða um tæplega 6 þúsund manns. Í kjördæminu eru kjördeildir 47 talsins og atkvæði verða talin í Íþróttahúsinu við Kaplakrika og fyrstu tölur birtar um kl. 22 að sögn Bjarna S. Ásgeirssonar, formanns yfirkjörstjórnar.

í Norðvesturkjördæmi eru 21.126 manns á kjörskrá og eru kjördeildir 52. Talning fer fram í Íþróttahúsinu í Borgarnesi við Þorsteinsgötu og ráðgert að birta fyrstu tölur um kl. 22. Sömu sögu er að segja úr Norðausturkjördæmi en talning fer fram í KA-heimilinu á Akureyri. Á kjörskrá eru 27.888 manns og fjölgar um tæp 1.800 frá síðustu kosningum. Kjördeildir eru 44 og gerir Jón Kr. Sólnes, formaður yfirkjörstjórnar, ekki ráð fyrir því að norðanhretið sem er í veðurkortunum spilli mikið fyrir söfnun atkvæða.

Reykjavíkurkjördæmin tvö, suður og norður, hafa samanlagt ríflega 96 þúsund manns á kjörskrá. Í Reykjavíkurkjördæmi suður eru 43.398 kjósendur og eru kjördeildirnar 40. Verður talið í íþróttahúsi Hagaskóla. Í Reykjavíkurkjördæmi norður eru 43.775 manns á kjörskrá og eru kjördeildir 39. Talning fer fram í Ráðhúsinu.

Feiknamikil utankjörfundaratkvæðagreiðsla var í Laugardalsöll í gær í umdæmi sýslumannsins í Reykjavík, þ.e. báðum Reykjavíkurkjördæmunum og í Suðvesturkjördæmi. Voru tæp 11 þúsund atkvæði greidd um kl. 19 og 1350 aðsend að auki. Var þetta þegar orðið um 1700 atkvæðum meira en í síðustu kosningum.

Utankjörfundaratkvæðin fara í innsiglaða kjörkassa sem fluttir eru í Ráðhúsið á kjördag og dreift í viðeigandi kjördeild. Þar eru atkvæðin talin þegar lokað hefur verið fyrir atkvæðagreiðslu. Kjósendur sem kosið hafa utan kjörfundar, geta fram að því komið á kjörfund og greitt atkvæði aftur og þar með ógilt utankjörfundaratkvæðið sitt ef þeim hefur snúist hugur í millitíðinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »