Geir með fullt starfsþrek

Geir H. Haarde
Geir H. Haarde mbl.is/Ómar

Geir H. Haarde sagði í þættinum Vikulokin í Ríkisútvarpinu í morgun að hann væri algerlega einkennalaus af sjúkdómi sínum og að hann hefði fullt starfsþrek. Honum líði vel andlega sem líkamlega og líti á veikindin sem „þúfu sem beri að sparka úr vegi.“

Hann segir veikindin ekki breyta því að hann takist á við verkefni næstu vikna og mánaða og hann teldi réttast að hann  Geir tilkynnti í gær að hann hefði greinst með krabbamein í vélinda.

Hann sagðist myndu ræða stöðu mála við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, eftir flokksstjórnarfund Samfylkingar sem haldinn verður í dag. Hann sagðist hins vegar ekki sjá annan kost betri en að halda núverandi stjórnarsamstarfi áfram fram að kosningum.

Geir segir fráleitt að halda því fram að ríkisstjórnin sé verkefnalaus og að nú liggi fyrir að nýta tímann sem best fram að kosningum. Ekkert sýni fram á að annarskonar stjórn myndi höndla mál betur fram að kosningum. Mikilvægt sé að halda vel á spöðunum og sporna gegn því að atvinnuleysi aukist enn frekar.

Hann sagði ljóst, að skiptar skoðanir væru innan Samfylkingarinnar með stjórnarsamstarfið og túlka megi fund Samfylkingarfélags Reykjavíkur í vikunni þannig að hann jafngilti því að Samfylkingin vildi ganga út úr ríkisstjórninni  þótt þetta hafi ekki verið sá vettvangur sem tekur slíkar niðurstöður.

Þá talaði Geir um mótmælin, sem voru við Alþingishúsið og Stjórnarráðið í vikunni og sagðist vona að flest fólk nái áttum í því sem er að gerast og sjái,  að atburðir sem þessir séu ólíðandi fyrir alla þá sem vilja standa vörð um grunnstofnanir lýðveldisins.

Sagðist Geir hafa upplifað það það sjálfur, að þekktur rithöfundur, Hallgrímur Helgason, hafi veist að bíl sínum og barið ítrekað með hnefanum í bílrúðuna, afmyndaður af heift. Þá hefðu sést myndir af því í sjónvarpinu að maður með hamar reyndi að mölva rúðurnar á stjórnarráðinu. Einnig var veist að Alþingi og lögreglan grýtt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert