Ingibjörg Sólrún: Afsögn Björgvins kom á óvart

Ingibjörg Sólrún talar við blaðamenn utan við heimili sitt í …
Ingibjörg Sólrún talar við blaðamenn utan við heimili sitt í morgun. mbl.is/Golli

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, og formaður Samfylkingarinnar, sagði við fréttamenn að afsögn Björgvins G. Sigurðssonar úr embætti viðskiptaráðherra hefði komið sér mjög á óvart vegna þess að hann hefði staðið sig mjög vel í embætti.

Hún sagðist hins vegar skilja það mjög vel og meta við Björgvin, að hann vildi með þessu búa í haginn fyrir framtíðina og að uppbyggingastarf geti farið fram óhindrað. Þetta væri algerlega hans ákvörðun og með henni, og ósk um að stjórnendur Fjármálaeftirlitsins víki, væri hann að snúa kröfunni á fleiri, þar á meðal stjórn Seðlabankans.

Ingibjörg Sólrún sagði of snemmt að segja til um hver yrði eftirmaður Björgvins í embætti viðskiptaráðherra.

Um afsögn stjórnar Fjármálaeftirlitsins sagði Ingibjörg Sólrún, að ekki væri um að ræða uppgjör við fortíðina heldur væri verið að skapa forsendur fyrir uppbyggingarstarfi í framtíðinni. 

Ingibjörg Sólrún mun síðar í dag eiga fund með Geir H. Haarde, forsætisráðherra, um framhald stjórnarsamstarfsins. Þegar hún var spurð hvort hún vildi að núverandi ríkisstjórn lifði áfram fram að kosningum svaraði hún, að hún vildi að það lifi ríkisstjórn sem geti tekist á við verkin sem þurfi að vinna í landinu.  Að því muni Samfylkingin stuðla.

mbl.is