Jóhanna næsti forsætisráðherra?

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ræðir við blaðamenn eftir að stjórnarsamstarfinu var …
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ræðir við blaðamenn eftir að stjórnarsamstarfinu var slitið. mbl.is/Golli

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, nefndi Jóhönnu Sigurðardóttur, sem mögulegan forsætisráðherra þjóðstjórnar. Þetta kom fram í máli Ingibjargar Sólrúnar á fundi með fréttamönnum.

Hún segir að það hafi verið ákvörðun Geirs H. Haarde að hafna tilboði Samfylkingarinnar og þau hafi ekki getað beðið lengur. Hún segist telja Jóhönnu besta kostinn í stöðunni nú. Jóhanna sé í raun tákngervingur fyrir það sem gera þurfi.

Ingibjörg Sólrún sagðist hafa gert  Geir tilboð um að þau tvö myndu stíga til hliðar og að Jóhanna Sigurðardóttir tæki við verkstjórn í ríkisstjórninni til að koma þeim málum í gegn sem nauðsynlegt væri. Því hafnaði Geir.

„Ég neita því ekki að mér finnst það nokkuð hrokafull afstaða af hálfu Sjálfstæðisflokksins, sem auðvitað ber meginábyrgð á því hruni sem hér hefur orðið og því valdakerfi sem byggðist upp á undanförnum 17 árum, að við þessar aðstæður þegar við erum tilbúin að starfa áfram með þeim flokki, að hann skuli ekki hafa í sér þá auðmýkt sem þarf til þess að taka í þessa útréttu hönd,“ sagði Ingibjörg á blaðamannafundi og bætti við að þetta sýndi að Sjálfstæðiflokkurinn væri valdakerfi sem hugsaði fyrst og síðast um sjálfan sig en ekki hvað væri best fyrir þjóðina við þessar aðstæður.

Ingibjörg sagði að á undanförnum vikum hefðu hlutir ekki gengið fram með þeim hætti sem Samfylkingin hefði viljað sjá. Mörg verk hefðu ekki komist til framkvæmda og ákvarðanir sem ríkisstjórnin hefði tekið lent í undandrætti. Miklu kraftmeiri aðgerðir þyrftu að vera í gangi og undir öflugri og skýrri forystu. Lagði hún því til að þau Geir stigju bæði til hliðar og Jóhanna Sigurðardóttir leiddi þá miklu vinnu sem væri framundan fram að kosningum. „Jóhanna er einn okkar reyndasti og ástsælasti stjórnmálamaður. Ég held að það viti það allir að þar sem hún kemur að, þar vinnast verkin,“ sagði Ingibjörg og bætti við að enginn þyrfti að efast um að hverjum steini yrði velt við undir hennar forystu. M.a. þyrfti að vinna áfram að áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hreinsa til í Seðlabankanum eins og í Fjármálaeftirlitinu og ráðast í miklar aðgerðir til bjargar heimilum og fyrirtækjum í landinu. 

Þá blés Ingibjörg á orð Geirs um að stjórnin hefði einungis flosnað upp vegna innanlandsátaka í Samfylkingunni.

Ríkisstjórnarsamstarfinu hefur verið slitið en Ingibjörg segir að þetta sama tilboð standi gagnvart öðrum flokkum sem gætu viljað fara í þá vegferð með Samfylkingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina