Hvalurinn setur hnút í Frjálsynda

mbl.is

„Þetta mun setja mikinn hnút í okkur Frjálslynda og mér heyrðist það á framsóknarmönnum líka í gær,“ segir Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins um yfirlýsingar þess efnis að heimild til hvalveiða verði afturkölluð af nýrri ríkisstjórn. Hann segir að torvelt gæti reynst að lýsa yfir stuðningi við ríkisstjórn Samfylkingar og VG ef hvalveiðar verða afturkallaðar.

Jóhanna Sigurðardóttir, tilvonandi forsætisráðherra, sagðist í gær gáttuð á þeirri ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar, fráfarandi sjávarútvegsráðherra, að leyfa hvalveiðar á sínum síðustu dögum í embætti og átti von á því að ný ríkisstjórn myndi draga hana til baka.

„Ég er búinn að segja það mjög skýrt að mér finnst það ekki koma til greina að draga ákvörðun um hvalveiðar til baka. Við erum náttúrulega að horfa á atvinnutækifæri í þessu landi og tekjur fyrir þjóðfélagið. Og mér finnst að menn geti bara ekkert slegið út af borðinu það sem ég kalla eðlilega nýtingu náttúruauðlinda.“

Guðjón Arnar segist ekki hafa rætt við forystumenn Samfylkingar eða VG eftir að ummælin voru látin falla. Hins vegar sé það kórskýrt í stefnuskrá Frjálslynda flokksins  að hann styðji hvalveiðar.

„Við munum ræða þetta í okkar þingflokki en ég sé ekki að við séum að fara að breyta okkar stefnu hvað þetta varðar. Ísland er í afar skrýtinni stöðu og ég hef orðað það þannig að í núverandi ástandi þýddi ekkert tilfinningavæl í sambandi við möguleika á atvinnusköpun. Við verðum að nýta alla möguleika sem gefast. Það hljóta allir að sjá að við komumst ekki í gegnum þetta erfiðleikatímabil með niðurskurðarleiðinni einni og sér. Það er útilokað. Við verðum að reyna að auka tekjurnar í þjóðfélaginu með öllum tiltækum ráðum. Hvalveiðar eru ein leiðin,“ segir Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert