Fyrstu verk sjálfstæðismanna í stjórnarandstöðu

Sjálfstæðismenn kynntu aðgerðir sínar í dag
Sjálfstæðismenn kynntu aðgerðir sínar í dag Árni Sæberg

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hyggjast gera það sitt fyrsta verk í stjórnarandstöðu að leggja fram tvö lagafrumvörp á þingfundi næsta miðvikudag. Þetta eru frumvörp um skuldaaðlögun og greiðslu séreignarsparnaðar. Bæði atriði voru nefnd á verkefnalista nýrrar ríkisstjórnar sem kynntur var í gær.

Bæði frumvörpin voru að sögn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, fullunnin af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnar en náðist ekki að leggja fram á þingi. „Við teljum mjög brýnt að þetta komi fram, það er búið að boða okkur til þings á miðvikudag og við viljum sýna það strax að á okkar þingsflokksfundi núna áðan var ýtt á að við færum fram með þetta, enda var löngu búið að ákveða þessi mál,“ segir Þorgerður.

Björn Bjarnason verður fyrsti flutningsmaður frumvarps um breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti, með skuldaaðlögun. . Í því felst að málsmeðferð þegar einstaklingur óskar nauðasamninga við kröfuhafa verði einfölduð. Frumvarpið mælir fyrir um að bætt verði nýjum kafla við þriðja þátt laganna sem ber heitið „Skuldaaðlögun“ - þar er gert ráð fyrir því að skuldari geti að ákveðnum skilyrðum uppfylltum leitað nauðasamnings til skuldaaðlögunar. Frumvarpið hafði þegar verið afgreitt í ríkisstjórn án nokkurra athugasemda að sögn Bjarnar. Tilganginn sagði hann þann að auðvelda fólki sem komið væri í algjört þrot með skuldir sínar að ganga til samninga, en erfitt væri að spá fyrir um hversu margir myndu nýta sér þessa leið. „Við rennum alveg blint í sjóinn með það.“

Árni M. Mathiesen verður fyrsti flutningsmaður frumvarps um greiðslu séreignasparnaðar, sem var að hans sögn fullsamið og tilbúið í fjármálaráðuneytinu í síðustu viku. Samkvæmt því verður heimilt að greiða út séreignarsparnað verði eftir því óskað til greiðslu veðskulda sem annarra skulda. Húsnæðis- og veðskuldabréf hafa þar forgang. Vörsluaðili sjái um greiðslu, haldi eftir tekjuskattsgreiðslum og sjái um að standa skil á þeim við ríkissjóð. „Þetta var eitt af þeim málum sem fyrrverandi ríkisstjórn hafði hugsað sér að leggja fyrir í lok janúar,“ sagði Árni.

mbl.is