Einn Seðlabankastjóri

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. Kristinn Ingvarsson

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í samtali við Kastljós Sjónvarpsins að hún ætli á morgun að kynna ríkisstjórninni frumvarp um endurskipulagningu í Seðlabankanum. Seðlabankastjóri verður einn og ráðinn á faglegum forsendum.

Jóhanna sagði að endurreisa þurfi trúnað við alþjóðasamfélagið en fjármálakerfi Íslendinga hafi beðið mikinn hnekki og trúverðugleiki brostið. Mikilvægt sé að endurreisa hann. Það sagðist Jóhanna hafa gert með því að ganga frá frumvarpi sem hún mun leggja fyrir ríkisstjórnina á morgun.

Frumvarpið felur í sér gagngerar breytingar á Seðlabankanum. Það mun m.a. fela í sér að skipaður verði einn faglega ráðinn Seðlabankastjóri. Staðan verður auglýst. Einnig verði teknar fyrir breytingar á peningamálastefnunni.

Jóhanna kvaðst hafa tilkynnt seðlabankastjórunum þremur, þeim Davíð Oddssyni, Eiríki Guðnasyni og Ingimundi Friðrikssyni, bréflega í dag að það sé vilji ríkisstjórnarinnar að leggja fram þetta frumvarp með fulltingi Framsóknarflokksins. Eftir er að ræða við Framsóknarflokkinn um málið en honum var sent bréf varðandi málið í dag.

Jóhanna sagðist að þar hafi komið fram sá vilji ríkisstjórnarinnar að endurskipað verði í bankaráð Seðlabankans með nýjum lögum. Hún kvaðst jafnframt hafa óskað eftir því við núverandi bankastjóra Seðlabankans að þeir láti allir þegar af störfum og að samið verði við þá um starfslok.

Þegar Þóra Arnórsdóttir, fréttamaður, spurði hvort starfslok bankastjóranna yrðu ekki kostnaðarsöm fyrir ríkið svaraði Jóhanna, að það væri vilji þjóðarinnar að endurskipuleggja bankakerfið og bankastjórarnir hlytu að ganga til liðs við ríkisstjórnina um það.

Forsætisráðherra hefur óskað eftir því að seðlabankastjórarnir þrír víki úr …
Forsætisráðherra hefur óskað eftir því að seðlabankastjórarnir þrír víki úr embættum sínum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert