Sigur kvenna og samkynhneigðra

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. mbl.is/Ómar

Breska ríkisútvarpið BBC fjallar á vefsíðu sinni í löngu máli um þau áhrif, sem skipun Jóhönnu Sigurðardóttur í embætti forsætisráðherra á Íslandi hefur á jafnréttisbaráttu kynjanna og réttindabaráttu samkynhneigðra.

„Þetta er skínandi dæmi um land, þar sem íbúarnir hafa yfirunnið fordóma sína gagnvart þeim sem hafa aðra kynhneigð," segir Juris Lavrikovs, talsmaður alþjóðasamtaka samkynhneigðra við BBC.  

Og Silvia Jaen, framkvæmdastjóri samtaka samkynhneigðra og transgender fólks á Spáni segir, að Jóhanna myndi neyða aðra evrópskra þjóðaleiðtoga til að takast á við sína fordóma með því að taka sambýliskonu sína með í opinberar heimsóknir.

„Ef ég gæti myndi ég taka næstu flugvél til Reykjavíkur til að fagna með Jóhönnu Sigurðardóttur," segir Jaen. „Þetta er ekki aðeins sigur fyrir lesbíur, þetta er sigur kvenna og raunar sigur allra."  

Lavrikovs segir, að mikill munur sé á afstöðu kjósenda til þessara mála í vestur- og austurhluta Evrópu og fyrrum Sovétlýðveldi séu langt á eftir öðrum löndum í félagslegri þróun. 

„Bleikt tjald skilur okkur að. Og það mun án efa taka langan tíma fyrir lönd í austurhluta Evrópu, að öðlast samskonar umburðarlyndi," segir Lavrikovs. Hins vegar séu skoðanir þar að breytast.

BBC segir, að í vesturhluta Evrópu séu samkynhneigðir stjórnmálamenn þó enn fréttaefni. Í síðustu viku hafi Roger Karoutchi orðið fyrsti franski ráðherrann til að lýsa því yfir að hann væri samkynhneigður. Hann sagðist vera ánægður með sambýlismann sinn og hefði enga ástæðu til að leyna því.

En vinir þingmannsins hafa sagt, að hann hafi neyðst til að gefa þessa yfirlýsingu vegna árása andstæðinga hans.  

Frétt BBC

mbl.is