Ingibjörg býður sig fram - Jóhanna forsætisráðherraefni

Ingibjörg Sólrún og Jóhanna á blaðamannafundi í morgun.
Ingibjörg Sólrún og Jóhanna á blaðamannafundi í morgun. mbl.is/Ómar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, ætlar að bjóða sig fram í alþingiskosningunum í apríl og sækjast eftir áframhaldandi formennsku í flokknum. Hún segist hins vegar leggja til að Jóhanna Sigurðardóttir verði forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar og leiði flokkinn í kosningunum.

„Ég tel að við Jóhanna saman höfum til að bera þá reynslu, þekkingu  og þann kraft, sem þarf við núverandi aðstæður," sagði Ingibjörg Sólrún á blaðamannafundi sem þær Jóhanna héldu í dag til að kynna þessar ákvarðanir þeirra. Jóhanna bætti við að hún teldi að þær Ingibjörg Sólrún geti saman ásamt sterki sveit Samfylkingarfólks gert það sem þurfi til að jafnaðarmenn verði áfram í stjórn að loknum kosningum.

Jóhanna mun bjóða sig fram í fyrsta sæti prófkjöri Samfylkingairnnar í Reykjavík og Ingibjörg Sólrún í 2. sætið. Það þýðir að þær leiða framboðslista flokksins í sitt hvoru Reykjavíkurkjördæminu. Aðspurð sagði Ingibjörg Sólrún, að hún gerði ráð fyrir að Össur Skarphéðinsson muni bjóða sig fram í þriðja sætið. „Við þrjú höfum unnið mjög vel saman," sagði Ingibjörg Sólrún.

Hún sagðist undanfarna fimm mánuði hafa barist við alvarleg veikindi sem hefðu kippt sér út úr daglegum veruleika. Því væri tímasetning á prófkjöri og kosningum ekki sú heppilegasta fyrir hana. „Ég hugleiddi alvarlega að draga mig alveg í hlé og hætta í pólitík. En mér fannst að í því fælist uppgjöf gagnvart þessum veikindum mínum og ákvað því að berjast við þau," sagði Ingibjörg Sólrún og bætti við að hún væri þess fullviss að hún nái fullri heilsu.

Jóhanna sagði, að þetta væri ögrandi verkefni  sem hún vildi ekki skorast undan. Ekki hefði ekki verið sjálfgefið að hún færi fram í kosningum eða tæki að sér það stóra verkefni sem Ingibjörg Sólrún væri að fela sér. „En við þessar aðstæður í þjóðfélaginu getur enginn skorast undan, ef hann telur sig geta lagt þjóðinni lið í þeirri baráttu, sem framundan er," sagði Jóhanna.

Hún sagðist telja það affarasælast fyrir Samfylkinguna að Ingibjörg Sólrún leiði flokkinn áfram. Sagði Jóhanna, að á þeim langa tíma sem hún hefði verið í stjórnmálum hefði hún unnið með mörgum flokksformönnum en líkað best að starfa með Ingibjörgu og styddi hana eindregið.

„Mér fannst Ingibjörg Sólrún sýna ótrúlegan kraft í miðjum sínum veikindum í janúar þegar hún snéri í raun þróuninni í stjórnmálunum við með þeirri afstöðu sem hún tók. Þá varð til ný ríkisstjórn sem lagði fram sem þurfti til að snúa skipinu við og sigla í rétta átt."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert