Gæti orðið mesta vinstri sveifla sem sést hefur hér

Forystumenn stjórnarflokkanna.
Forystumenn stjórnarflokkanna. mbl.is/Ómar

Ekki er útilokað að í kosningunum í vor verði mesta vinstri sveifla sem orðið hefur í alþingiskosningum hér á landi frá upphafi. Þá kæmi ekki á óvart að ríkisstjórnarflokkarnir, Samfylking og Vinstri græn, lýstu því yfir fyrir kosningar að ef þeir næðu meirihluta, mundu þessir tveir flokkar mynda ríkisstjórn eftir kosningar.

Þetta kom fram í erindi Ólafs Þ. Harðarsonar prófessors á hádegisfundi með nemendum og kennurum í stjórnmálafræði við HÍ í gær.

„Nú veit ég ekki hvað þeir ætla að gera, en það kæmi mér ekki á óvart, þó að þeir mundu gera eitthvað af þessu tagi,“ sagði Ólafur. „Ef þeir gera það, þá yrðu það merkileg tíðindi, að binda sig fyrirfram um stjórnarsamstarf.“ Forystumenn flokka lýsa því nær alltaf yfir að þeir gangi óbundnir til kosninga um stjórnarsamstarf að þeim loknum. Á því eru þó undantekningar og rifjaði Ólafur upp að árið 1995 þegar Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi forsætisráðherra, stofnaði Þjóðvaka, lýsti hún því yfir að hún vildi að menn segðu fyrir kosningar með hverjum þeir vildu starfa í ríkisstjórn.

Hann vék einnig að því að um þessar mundir mælast Samfylking og Vinstri græn með um 55% fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn með um 40%. „Auðvitað getur þetta breyst verulega fram að kosningum,“ sagði Ólafur. „En ef úrslitin yrðu á þessa leið, þá væru það vissulega gríðarleg tímamót í íslenskri stjórnmálasögu. Það yrði meiriháttar breyting á íslenska flokkakerfinu ef þetta gengi eftir. Það er ekki útilokað að svo verði.“

Ólafur velti því fyrir sér hvort komandi þingkosningar boðuðu tímamót í íslenskri stjórnmálasögu. „Mun „fjórflokkurinn“ hrynja í þessum kosningum? Ég á síður von á því," sagði hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert