Keik og stolt í sjötta sætinu

Kolbrún Halldórsdóttir ásamt flokkssystrum sínum í Vinstri grænum.
Kolbrún Halldórsdóttir ásamt flokkssystrum sínum í Vinstri grænum. Guðmundur Rúnar Guðmundsson

„Ég hef alltaf verið umdeild í flokknum innan og utan hans. Ástæðan er sú að ég hef verið mjög afdráttarlaus í skoðunum,“ segir Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra, sem hafnaði í 6. sæti í forvali Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Reykjavík. Hún nefnir sérstaklega umhverfismál og kvenfrelsismálin, sem hún hefur ekki gefið neinn afslátt af, en vill þó ekki túlka niðurstöðuna þannig að þau málefni séu á undanhaldi meðal flokksmanna, þótt alvarlegt væri ef svo reyndist.

Forvalið gildir fyrir bæði Reykjavíkurkjördæmin svo segja má að Kolbrún sé komin í baráttusæti í öðru hvoru þeirra. Í síðustu kosningum fengu Vinstri-græn tvo þingmenn í hvoru Reykjavíkurkjördæminu fyrir sig og mælast nú töluvert yfir kjörfylgi sínu í skoðanakönnunum. Því má alls ekki útiloka að Kolbrún haldi þingsætinu.

„Einhverjir hafa greinilega verið í baráttu og verið að fá fólk til að koma inn í flokkinn. En ég veit ekki hvað á að leggja mikið út af því,“ segir Kolbrún, sem sjálf stóð ekki fyrir skipulögðum úthringingum eða nýskráningum í flokkinn. „Ég velti fyrir mér hvort það hafi haft áhrif.“

Þetta hefur hins vegar ekki áhrif á samleið Kolbrúnar með sínum flokki, þó svo hún hafi boðið sig fram í forystusæti en ekki fengið brautargengi í það. „Nei herra minn trúr. Ég hef tekið þátt í að stofna þennan flokk og byggja hann upp frá grunni. Ég er afar stolt af þeirri vinnu. Að flokkurinn skuli vera með á milli tuttugu og þrjátíu prósenta fylgi í skoðanakönnunum er auðvitað algjört kraftaverk,“ segir Kolbrún.

mbl.is