Tryggvi Þór svarar grein Gylfa

Tryggvi Þór Herbertsson
Tryggvi Þór Herbertsson Valdís Þórðardóttir

Tryggvi Þór Herbertsson, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, skrifar á vef sínum í dag að sér sýnist að margir geri sér ekki grein fyrir þeim vanda sem fyrirtækin og heimilin í landinu standa frammi fyrir.

Vísar hann þar til aðsendrar greinar Gylfa Magnússonar, viðskiptaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu í dag:

„Gefum okkur að þrír ímyndaðir menn eigi í viðskiptum. Köllum þá t.d. Tryggva, Þór og Herbert. Tryggvi og Þór skulda hvor um sig Herberti 10 milljónir. Tryggvi er vel stæður, með góðar tekjur og á ekki í neinum vandræðum með að standa í skilum. Þór er hins vegar afar illa stæður og fyrirséð að hann mun ekki geta greitt neitt af láni sínu. Það er því ljóst að af þeim 20 milljónum sem þeir félagar skulda samanlagt munu einungis 10 milljónir innheimtast. Herbert veit þetta vel, enda keypti hann skuldabréf þeirra Tryggva og Þórs á hálfu nafnverði, vitandi að helmingur skuldarinnar væri tapaður.

Nú bregður svo við að fyrirskipun kemur frá stjórnvöldum um að afskrifa skuli 20% allra skulda. Því fagnar Tryggvi, enda fær hann þá tvær milljónir gefnar frá Herberti, sem hann þó hafði enga þörf fyrir. Hann fer að velta því fyrir sér hvort hann ætti frekar að kaupa sér vélsleða eða mótorhjól. Þór lætur sér fátt um finnast enda er hann í jafnslæmum málum hvort sem hann skuldar átta eða 10 milljónir sem hann getur ekki greitt. Vandi hans er áfram óleystur. Nú hefur hins vegar bæst við vandi Herberts, sem hefur tapað tveimur milljónum. Hann klórar sér í hausnum yfir því, enda skilur hann ekki hvernig hann á að nota tapaða kröfu á Þór til að finna tvær milljónir til að gefa Tryggva," skrifar Gylfi.

Tryggvi Þór segir að við yfirfærslu eigna milli gömlu og nýju bankanna hafi verið gert ráð fyrir því að stórkostlegar afskriftir þyrftu að verða á lánum til heimila og fyrirtækja.

„Því miður verður það ekki vitað fyrr en 15. apríl þegar ráðgjafafyrirtækið Oliver Wyman hefur lokið vinnu sinn hve miklar afskriftirnar verða. Heyrst hefur þó að afskriftirnar verði hugsanlega 50%. Jafnframt hafa Oliver Wyman sagt að lánasafnið sé eitt það lélegasta sem þeir hafa nokkru sinni séð. Ef afskriftin er 50% þá verða um 6000 milljarðar að nafnverði bókaðir á reikningum nýju bankanna á 3000 milljarða. Hér er verið að tala um lán til heimila og venjulegra fyrirtækja. Ekki er verið að tala um lán til stóru fjárfestingarfélaganna og nokkurra stórra fyrirtækja sem enn eru í gömlu bönkunum.

Verkefnið sem nýju bankarnir standa frammi er ómannlegt. Hvað þarf að gera upp mörg fyrirtæki og hvað munu margir missa vinnuna í kjölfarið? Hve mörg heimili verða gjaldþrota? Hvar stoppar vítahringurinn?," að því er segir á vef Tryggva Þórs.

Gylfi Magnússon.
Gylfi Magnússon. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert