Þurfum nýtt sverð

Kristján Þór, sést hér fagna ásamt mótframbjóðanda hans til formanns, …
Kristján Þór, sést hér fagna ásamt mótframbjóðanda hans til formanns, Bjarna Benediktssyni, eftir að þeir höfðu báðir flutt ræður.

Kristján Þór Júlíusson sagði í framboðsræðu sinni í embætti formanns að Sjálfstæðismenn þyrftu að vígbúast.  Hann sagði jafnframt að flokkurinn þyrfti að nálgast hlutverk sitt af auðmýkt. Góður rómur var gerður að ræðu Kristjáns og var hann hylltur með dynjandi lófaklappi í lok hennar.

Kristján tók dæmi um Egil Skallagrímsson sem hefði misst son sinn í greipar Ægis. Þetta hafi veitt honum hvatningu til að yrkja frekar erfiljóð en að svelta sig í hel. Egill hafi risið úr rekkju og ort Sonatorrek þar sem hann segist vilja ráðast gegn hafinu með sverði sínu til að rétta sinn hlut. Kristján sagði að íslensk þjóð hefði orðið fyrir miklum áföllum.

„Það stoðar lítt að sitja með hendur í skauti, það stoðar lítt að halda áfram á sömu brautinni eða treysta því að öll él birti upp um síðir. Við þurfum sjálf að skapa örlög okkar og leggja fram alla krafta okkar til að tryggja íslenskri þjóð trausta afkomu og bjarta framtíð. Hér þarf nýtt blóð, nýja sýn og nýjar áherslur, nýtt sverð sem hert er í eldri reynslunnar,“ sagði Kristján. Hann sagðist hafa tekið ákvörðun um framboð að vandlega íhuguðu máli. Hann sagði að næði hann kjöri myndi hann gegna því embætti af trúmennsku og réttsýni, dugnaði og elju.

Græðgi, ábyrgðarleysi og hroki
Kristján sagði að afleiðingar græðgi, ábyrgðarleysis og hroka skektu undirstöðu íslensks velferðarþjóðfélags sem byggt var upp undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Pólitískir andstæðingar flokksins hefðu nýtt sér það ástand sem hefði skapast í efnahagsmálum þjóðarinnar. Nú væri tækifæri til þess að endurnýja heitin og hefja til vegs á ný þau góðu gildi Sjálfstæðisstefnunnar sem því miður hafa ekki alltaf verið höfð að leiðarljósi. Ráðast þyrfti í gagngera endurskoðun á starfsháttum og samskiptum flokksins við félagsmenn sína og þjóðina alla. Við þá endurskoðun mætti ekki missa sjónar af grundvallargildum flokksins. Menn ættu að vera frjálsir til að skapa sín eigin örlög, hamingju og verðmæti. Kristján vísaði til umræðna um Evrópusambandið og um niðurstöður Endurreisnarnefndar.  

„Að minni hyggju er veruleikinn einfaldlega sá að næstu árin þurfum við, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að komast í gegnum alla erfiðleika af eigin íslenskum rammleik, með eigin útsjónarsemi og dugnaði,“ sagði Kristján.

Innganga í ESB fremur gylliboð en töfralausn
Kristján sagði að þjóðin ætti heimtingu á því að stjórnmálaöflin legðu fram raunhæfar lausnir. Hér eftir sem hingað til yrði spurt um hvaða stjórnmálaöfl gætu tryggt sem flestum fjölskyldum sómasamlega afkomu, fjölbreytt störf, menntun og heilbrigðisþjónusta. 

„Þá er innganga í Evrópusambandið að mínu viti fremur en gylliboð en töfralausn,“ sagði Kristján. Kristján sagði að lausn vandans fælist í grunngildum Sjálfstæðisstefnunnar.  Þau væru um leið forsenda þess að þjóðin gæti tekist á við þá kólgubakka sem hrannast hefðu upp.  „Þessi grunngildi eru forsenda þess að við sem þjóð fáum notið þess besta sem býr í hverjum einstaklingi,“  sagði Kristján.

Kristján sagði að árið 2008 hefði verið afdrifaríkt í sögu flokksins. Í fyrsta skipti í tæplega átján ár væri Sjálfstæðisflokkurinn utan ríkisstjórnar  og engum dyldist að tiltrú flokksins hefði beðið hnekki, bæði meðal almennings og ekki síður innan okkar eigin raða. „Árið 2009 og þessi landsfundur gætu þannig markað tímamót og nýtt upphaf með nýrri forystu og nýjum áherslum.“

Hann þakkaði Geir H. Haarde fyrir vel unnin störf í þágu þjóðarinnar. Hann lagði áherslu á að mikilvægt væri að að til forystu í Sjálfstæðisflokknum veldist maður með víðtæka reynslu og þekkingu á atvinnulífi þjóðarinnar. „Því flokkurinn á að vera þverskurður af þjóðinni, leiðtogi hans á að vera fastur fyrir og alþýðlegur, metnaðarfullur og víðsýnn, hann á að þekkja til lífskjara þeirrar þjóðar sem landið byggir og vita hvar hjartað slær,“ sagði Kristján.

Kristján sagði að ef einhvern tímann hefði verið þörf fyrir að ýta undir frumkvæði í íslensku þjóðfélagi, þá væri það nú.  Deyfð þyrfti að víkja fyrir dirfsku og bölmóður fyrir bjartsýni. Kristján fékk standandi lófaklapp að ræðu lokinni.

Frá landsfundi.
Frá landsfundi. mbl.is / Heiddi
mbl.is / Heiddi
Kristján Þór Júlíusson.
Kristján Þór Júlíusson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert