Fráleitt að draga nafn Kjartans inn í atburðarásina

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Ómar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í athugasemd, sem lesin var upp í fréttum Sjónvarpsins, að  hann hefði dregið þá ályktun af atburðarás styrkjamálsins, eins og henni hafi verið lýst fyrir honum, að báðir framkvæmdastjórar flokksins árið 2006 hafi vitað af styrkjunum frá FL Group og Landsbankanum.

„Kjartan Gunnarsson er hinsvegar fullfær um að svara því hvort að þetta hafi verið með þessum hætti eða ekki. Þetta er að mínu áliti fráleitt, að draga nafn Kjartans inn í þessa atburðarás vegna þess að hann hafði ekkert með þau mál að gera, sem tengdust þessum styrkjum. Samskipti vegna þessa máls fóru fyrst og fremst fram milli Andra Óttarssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra, og Geirs H. Haarde, fyrrverandi formanns flokksins, sem tók ákvörðun um að veita styrkjunum viðtöku," sagði í athugasemd Bjarna.

Kjartan sagði í fréttum Ríkisútvarpsins, að hann stæði við fyrri orð sín um að hann hefði ekki vitað af styrkjunum stóru þegar þeir voru veittir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert