Ríkisendurskoðun hefur ekki heimild

Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðlaugur Þór Þórðarson Ómar Óskarsson

Ríkisendurskoðun hefur ekki heimild til að safna upplýsingum innan Orkuveitu Reykjavíkur um störf stjórnarformanna, eins og Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður sagðist í yfirlýsingu í gær ætla að óska eftir. Ríkisendurskoðun hefur enn ekki borist formlegt erindi frá Guðlaugi.

„Við höfum ekki fengið þetta inn á borð til okkar ennþá, svo það er svo sem ekki hægt að segja af eða á um það,“ segir Sveinn Arason ríkisendurskoðandi. „Ég veit ekki nákvæmlega í hverju beiðnin felst umfram það sem ég las í Morgunblaðinu í morgun, en ég get svo sem sagt að miðað við það sem þar stendur þá höfum við enga heimild til að fara út í þá rannsókn sem þar er tilgreind.“

Guðlaugur Þór sagði í yfirlýsingu í gær að hann óskaði þess að Ríkisendurskoðun tæki út störf hans sem stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur og skilaði niðurstöðu sem fyrst. Vafi er hinsvegar um hvort slík rannsókn er yfirhöfuð í verkahring Ríkisendurskoðunar.

„Það er næsta ljóst að við höfum enga heimild til þess, ég held að það sé alveg tæmandi talið í rauninni hvaða heimildir við höfum til að rannsaka svona atriði, í lögunum um ríkisendurskoðun. En það verður náttúrulega að hafa það í huga að ég er ekki með neitt erindi á borðinu hjá mér,“ segir Sveinn.

Hann segist ekki muna til þess að Ríkisendurskoðun hafi áður ráðist í viðlíka rannsókn né geta sagt til um hversu langan tíma slík rannsókn tæki ef til hennar kæmi, „enda þarf ég ekkert að velta því fyrir mér.“ 

Samkvæmt lögum um Ríkisendurskoðun skal stofnunin annast endurskoðun ríkisreiknings og reikninga stofnana, sjóða og annarra aðila sem reknir eru á ábyrgð ríkissjóðs eða ríkissjóður á. Orkuveita Reykjavíkur er í eigu sveitarfélaga.

mbl.is