Framboð P-lista úrskurðað gilt

Landskjörstjórn úrskurðaði rétt í þessu að framboðslistar P-lista, Lýðræðishreyfingarinnar í Reykjavíkurkjördæmum norður og suður væru gildir. Lýðræðishreyfingin býður því fram lista í öllum sex kjördæmum landsins.

Lýðræðishreyfingin skilaði inn framboðslistum á tilsettum tíma í öllum kjördæmunum sex. Allir frambjóðendur á listunum staðfestu framboð sitt fyrir Lýðræðishreyfinguna en tilgreindu ekki sérstaklega í hvaða kjördæmi þeir bjóða sig fram. Yfirkjörstjórnir túlkuðu ákvæði kosningalaga  sem að þessu lúta mismunandi.

Yfirkjörstjórnir í Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi, Suðurkjördæmi og Suðvesturkjördæmi úrskurðuðu framboðslista Lýðræðishreyfingarinnar gilda, yfirkjörstjórnir Reykjavíkurkjördæmanna úrskurðuðu hins vegar framboðslistana ógilda en yfirkjörstjórn í Suðvesturkjördæmi klofnaði í afstöðu til lögmætis framboðs Lýðræðishreyfingarinnar. Meirihluti kjörstjórnar eða þrír kjörstjórnarmenn af fimm úrskurðuðu framboðið gilt, þrátt fyrir að frambjóðendur lýstu ekki yfir framboði í tilteknu kjördæmi. Tveir nefndarmenn vildu hins vegar úrskurða framboðið ógilt.

Úrskurðum yfirkjörstjórna Reykjavíkurkjördæmanna var skotið til landskjörstjórnar. Jafnframt krafðist Lýðræðishreyfingin þess að oddviti yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi norður viki sæti og að kjörstjórnarmenn yfirkjörstjórna beggja Reykjavíkurkjördæmanna afhendi upplýsingar um tengsl sín við stjórnmálaflokkana og útrásarfyrirtæki.

Í greinargerð með kærunni segir að varðandi hæfi oddvita yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmis norður sé á því byggt að Erla Árnadóttur oddviti yfirkjörstjórnar Reykjavíkur norður sé lögmaður á sömu lögmannstofu og fyrirrennari hennar Þórunn Guðmundsdóttir, lögmannsstofunni Lex, en lögmannsstofan hefur mikið starfað fyrir útrásarvíkingana.

„Þórunn sagði í sjónvarpi fyrir framan þjóðina í janúar 2008 að það væri nauðgun á lýðræðinu í landinu, byði Ástþór sig aftur fram í kosningum hér á landi. Þá lét Þórunn að því liggja að Ástþór hefði blekkt kjósendur í forsetakosningunum árið 2004,“ segir í greinargerð Lýðræðishreyfingarinnar.

Þá segir að Lex starfi einnig fyrir Ólaf Ólafsson og Samskip en Ástþór stendur nú í málaferlum við þessa aðila eftir að hafa lýst því yfir að hann vilji að lögregla kanni bókhaldsóreiðu hjá Samskip.

Um kröfu um afhendingu upplýsinga er á því byggt að úrskurðir yfirkjörstjórna séu til komnir af annarlegum ástæðum sem rekja megi til þess að Ástþór vilji beita sér fyrir því að útrásarvíkingarnir sem settu þjóðina á hausinn sæti gæsluvarðhaldi meðan rannsókn bankahrunsins stendur yfir og að það fari fram lögreglurannsókn á fjármálum stjórnmálaflokkanna og hugsanlegri mútuþægni þeirra.

Kröfum Ástþórs hafnað

Landskjörstjórn kvað upp sinn úrskurð nú fyrir stundu. Úrskurðir yfirkjörstjórna Reykjavíkurkjördæmanna voru felldir úr gildi og framboð Lýðræðishreyfingarinnar telst því gilt. Sjö framboð verða því í hverju hinna sex kjördæma í landinu.

Landskjörstjórn hafnaði hins vegar kröfu Lýðræðishreyfingarinnar um að oddviti kjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis norður víki sæti.

Landskjörstjórn vísaði frá kröfu um að þeir sem eiga sæti í yfirkjörstjórnum Reykjavíkurkjördæmanna afhendi upplýsingar um tengsl sín við stjórnmálaflokkana og útrásarfyrirtæki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert