Segja þaggað niður í nýjum framboðum

Frá kynningarfundi Borgarahreyfingarinnar.
Frá kynningarfundi Borgarahreyfingarinnar.

Borgarahreyfingin mótmælir harðlega þeirri ákvörðun RÚV að hætta við gjaldfrjálsar sjónvarpskynningar á vegum þingframboða. Borgarahreyfingin segir rök RÚV fyrir ákvörðuninni ólýðræðisleg. Verið sé að þagga niður í nýjum framboðum. Hreyfingin krefst þess RÚV úthluti þeim framboðum sem vilja, 10 mínútna útsendingartíma, gjaldfrjálst, til kynningar á stefnumálum sínum í sjónvarpi allra landsmanna.

Borgarahreyfingin hefur sent Páli Magnússyni, útvarpsstjóra RÚV og Katrínu Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, harðort bréf vegna ákvörðunar RÚV. Í þeim segir að RÚV hafi tekið þessa ákvörðun vegna þess að meirihluti stjórnmálaflokkanna vildi ekki notfæra sér gjaldfrjálsa útsendingu.

„Þeir flokkar sem sitja á Alþingi og hafa veitt sjálfum sér rausnarlega úr sjóðum almennings geta með öðrum orðum afþakkað gjaldfrjálsa útsendingu fyrir eigin framboð og þannig komið í veg fyrir gjaldfrjálsa kynningu annarra framboða. Nýrra framboða sem ekki hafa í neina sjóði að ganga til að kynna stefnumál sín. Það er fullkomlega óboðlegt í samfélagi sem vill kenna sig við lýðræði að rótgrónir stjórnmálaflokkar, sem landsmenn vita vel hvað standa fyrir, geti keypt sér alla þá auglýsingu sem þá lystir og um leið komið í veg fyrir að raddir nýrra framboða heyrist,“ segir í bréfunum.

Þá segir að Borgarahreyfingin sé nýtt framboð sem bjóði fram lista í öllum kjördæmum í komandi alþingiskosningum. Fólk eigi rétt á að kynnast stefnumálum framboðsins í sínum eigin fjölmiðli, ekki aðeins út frá almennum lýðræðissjónarmiðum heldur lagalegu hlutverki og skyldum Ríkisútvarpsins ohf.

„Borgarahreyfingin hafnar því að flokkarnir á Alþingi eða aðrir geti með ofríki þaggað niður í nýjum stjórnmálahreyfingum. Ef ef einhvern tímann var þörf á Íslandi fyrir nýjar raddir, þá er það í kosningunum 25. apríl. Borgarahreyfingin krefst þess að þau framboð sem vilja, fái umræddan 10 mínútna útsendingartíma gjaldfrjálst til kynningar á stefnumálum sínum í sjónvarpi allra landsmanna. Líkt og stóð til,“ segir í niðurlagi bréfanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert