Kosningar kosta 200 milljónir

Gert er ráð fyrir því að það kosti að minnsta kosti 200 milljónir króna að halda alþingiskosningarnar næstkomandi laugardag. Kostnaðurinn er greiddur úr ríkissjóði, meðal annars um hundrað milljónir kr. sem sveitarfélögin leggja út vegna launagreiðslna og annars kostnaðar á kjörstöðunum.

Alls eru 132 kjörstaðir á landinu og fleiri en ein kjördeild á sumum, þannig að samtals eru 269 kjördeildir.

Á kjörskrá eru nú um 228 þúsund Íslendingar, um sjö þúsund fleiri en í alþingiskosningunum fyrir tveimur árum. Samkvæmt lögum skal prenta 10% fleiri kjörseðla en kjósendur eru á kjörskrá. Það þýðir að prentaðir eru um 251 þúsund kjörseðlar. Það lá ekki fyrir fyrr en í fyrradag, eftir úrskurð landskjörstjórnar um að framboðslistar Lýðræðishreyfingarinnar væru gildir í öllum kjördæmum landsins, að hægt var að setja kjörseðlana í prentun. Næstu dagar fara í að dreifa þeim um landið og á kjördeildir. Það tekur sinn tíma og þess vegna lá á að koma kjörseðlunum í prentun.

Búist við færri utan kjörfundar

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefur staðið yfir að undanförnu og verður fram á kjördag. Oft hafa um 10% kjósenda á kjörskrá greitt atkvæði utan kjörfundar. Samkvæmt upplýsingum Hjalta Zóphóníassonar, skrifstofustjóra í dómsmálaráðuneytinu, stefnir í það að færri utankjörfundaratkvæði berist að þessu sinni. Það skýrist meðal annars af því að fólk er minna á ferðinni vegna efnahagsástandsins í landinu. 

Nánar er fjallað um þetta í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »