Bjarni Harðarson lýsir yfir stuðningi við VG

Bjarni Harðarson: styður VG í þingkosningunum.
Bjarni Harðarson: styður VG í þingkosningunum. mbl.is/Ómar

Bjarni Harðarson, fyrrverandi alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn, hefur ákveðið styðja Vinstri hreyfinguna - grænt framboð (VG) í Alþingiskosningunum á laugardaginn.

Bjarni lýsir yfir stuðningi við VG í grein í Morgunblaðinu í fyrramálið.

„Í greininni geri ég grein fyrir sjónarmiðum mínum, en ég tel einfaldlega að eins og málum er nú komið séu Vinstri græn eini kosturinn fyrir þjóðholla Íslendinga, sem finnst það alvöru mál að Ísland gangi ekki í Evrópusambandið,“ sagði Bjarni í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Stefnunni snúið til Brüssel á ný

„Strax núna, nokkrum dögum eftir landsfund, er forysta Sjálfstæðisflokksins byrjuð að beina stefnunni aftur í átt að Brüssel, en landsfundurinn reyndi hvað hann gat til að beina stefnunni þaðan. Það hefur sannast rækilega í þessu máli, eins og málum varðandi þjóðareign auðlinda, að landsfundarsamþykktir Sjálfstæðisflokksins virka ekki alls kostar.“

Bjarni telur aðra flokka einnig varasama þegar kemur að ESB, „því bæði Framsóknarflokkurinn og Borgarahreyfingin hafa lýst yfir vilja til þess að fara í aðildarviðræður. Þar er reyndar einn flokkur undanskilinn, Frjálslyndi flokkurinn; hann er líka valkostur þeirra sem eru andsnúnir ESB aðild, en þá aðeins ef menn telja að hann eigi möguleika á að ná inn mönnum á þing. Hver möguleikinn er á því verður hver og einn að gera upp við sig,“ sagði Bjarni.

Mikilvægt að VG verði sterkt

Bjarni telur það skipta mjög miklu máli að Vinstri grænir verði sem sterkastir eftir kosningar. „Það er barnaskapur að ætla að það verði ekki reynt að halda hér áfram núverandi stjórnarsamstarfi og þá skiptir miklu máli að Vinstri grænir komi sem sterkastir að því borði, því að vilji Samfylkingarinnar til þess að setja Evrópusambandið á oddinn er ljós. En við höfum fengið skýr skilaboð í kosningabaráttunni frá forystumönnum Vinstri grænna, einkum Steingrími J. Sigfússyni, að flokkurinn muni ekki fallast á ESB aðild.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert